Nóg að lesa en ekkert Viagra

Joaquín Archivaldo Guzmán
Joaquín Archivaldo Guzmán AFP

„Sá stutti“ dafnar vel í fangelsinu, hann hefur þyngst og blóðþrýstingurinn er á niðurleið, segja mexíkósk yfirvöld um eiturlyfjabaróninn Joaquín Archivaldo Guzmán sem var fangaður á nýjan leik í janúar eftir að hafa verið á flótta í hálft ár.

Guzmán fær sjálfshjálparráðgjöf í fangelsinu og nóg að lesa en nú fær hann ekki að taka á móti konum né heldur viagra í fangelsinu. Guzmán hefur í tvígang tekist að flýja úr öryggisfangelsi í Mexíkó en hann er talinn bera ábyrgð á dauða 34 þúsund manns á löngum glæpaferli sínum.

Fyrir utan klefa Guzmáns standa nú tveir fangaverðir og fylgjast með hverri hreyfingu hans allan sólarhringinn. Það er hundur á vaktinni sem hefur það hlutverk eitt að smakka á mat fangans áður en hann borðar til þess að tryggja að ekki sé eitrað fyrir honum og Guzmán fær ekki að vera með sjónvarp í klefanum. En fangelsið útvegar honum eins mikið lesefni og hann vill.

Frá því hann var handsamaður í janúar og fluttur í sama fangelsið og hann flúði með ævintýralegum hætti úr í júlí í fyrra hefur Guzmán, sem gengur undir gælunafninu Sá stutti, lesið sögu Miguels Cervantes af Don Kíkóta frá Mancha. Bókin, sem kom út 1605 og 1615, er alla jafna talin helsta bókmenntaverk Spánar og með helstu verkum evrópskrar bókmenntasögu.

Nú er hann að lesa The Purpose Driven Life: What on Earth Am I Here for? eftir guðsmanninn Rick Warren. Um er að ræða sjálfshjálparbók sem hefur að geyma ýmis gullkorn sem Guzmán kann jafnvel að meta. Gullkorn eins og Við erum afurðir fortíðar okkar, en við þurfum ekki að fara í fangelsi vegna þeirra.

Samkvæmt frétt Guardian, sem meðal annars byggir á viðtali AP fréttastofunnar við lögreglumenn og fleiri þá kvartar Guzmán yfir heilsuleysi í fangelsinu og að hann eigi erfitt með svefn. Áður en hann flúði í fyrra í gegnum göng sem grafin voru úr sturtu hans í klefanum, fékk hann að taka á móti konum í fjóra tíma á níu daga fresti. Áður en konur heimsóttu hann fékk hann stinningarlyfið Viagra hjá fangelsisyfirvöldum. En hann hefur ekki fengið Viagra síðan hann náðist og var fluttur í fangelsið 8. janúar.

Þegar Guzmán var á flótta hitti hann mexíkósku leikkonuna Kate del Castillo undir því yfirskyni að gera heimildarmynd um ævi hans. En svo virðist sem Guzmán hafi aldrei ætlað sér að gera myndina heldur hafi hann bara heillast af leikkonunni og persónunni sem hún lék í mexíkóskri þáttaröð, Teresu Mendoza.

Saksóknarar hafa sagt að samband hennar við Guzmán og fundur hans og bandaríska leikarans Sean Penn á afskekktum slóðum í Mexíkó hafi komið þeim á sporið og orðið til þess að hann var handsamaður í janúar.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert