Skammast sín fyrir kosningabaráttuna

Andstæðingar Donalds Trump mótmæla honum. Kosningabarátta repúblikana hefur einkennst af …
Andstæðingar Donalds Trump mótmæla honum. Kosningabarátta repúblikana hefur einkennst af neikvæðni og skapað úlfúð í samfélaginu. Meirihluti repúblikana skammast sín fyrir flokkinn. AFP

Kosningabarátta frambjóðenda í forvali repúblikana lætur meirihluta kjósenda þeirra skammast sín fyrir flokkinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Þrátt fyrir að fjórum af hverjum tíu lítist illa á hvernig Donald Trump hefur tekið á ofbeldi á kosningafundum sínum græðir hann mest á brottfalli annarra frambjóðenda. 

Harðar persónuárásir og svívirðilegar yfirlýsingar Trump hafa einkennt kosningabaráttu repúblikana. Ný skoðanakönnun New York Times og CBS News leiðir í ljós að hún hefur látið 60% kjósenda í forvalinu skammast sín fyrir Repúblikanaflokkinn. Sama hlutfall telur kosningabaráttuna nú neikvæðari en fyrri ár.

Fjöldi frambjóðenda í forvalinu hefur helst úr lestinni á undanförnum vikum og nú standa eftir þeir Ted Cruz og John Kasich auk Trump. Sá síðastnefndi virðist græða mest á brotfalli frambjóðenda. Þannig segjast nú 46% kjósenda í forvalinu vilja sá Trump sem forsetaframbjóðanda flokksins og hefur það hlutfall aldrei mælst hærra frá því að hann lýst yfir að hann byði sig fram í júní í fyrra. Þrír af hverjum fjórum repúblikönum telja að Trump hljóti útnefninguna. 

Demókrötum líður betur með sína kosningabaráttu en þeir eru þó klofnari í afstöðu sinni til frambjóðendanna tveggja. Hillary Clinton hefur naumt forskot á Bernie Sanders en áhugi á framboði hennar hefur dalað á sama tíma og kjósendur flokksins eru spenntari fyrir öldungadeildarþingmanninum frá Vermont. Engu að síður telja sjö af hverjum tíu demókrötum að Clinton hljóti útnefninguna.

Könnunin bendir til þess að Sanders hefði sigur á Trump með meiri mun en Clinton ef kosið væri á milli þeirra til embættis forseta. Sanders ynni 15 prósentustiga sigur en Clinton tíu. John Kasich er eini repúblikaninn sem myndi sigra Clinton samkvæmt könnuninni.

Þó að Clinton og Trump séu langlíklegust til þess að hljóta útnefningu flokka sinna er stór hluti kjósenda fullur efasemda um þau. Þannig segist helmingur kjósenda verða óttasleginn ef Trump yrði kjörinn forseti og 19% segjast myndu vera áhyggjufull. Rúmur þriðjungur yrði óttasleginn yfir sigri Clinton og fimmtungur hefði áhyggjur.

Frétt New York Times af niðurstöðum könnunarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert