Þurfa ekki lengur aðstoð Apple

Apple hefur staðið fást á því að hjálpa FBI ekki …
Apple hefur staðið fást á því að hjálpa FBI ekki að opna síma skotárásarmanns. AFP

Fyrirtöku í máli bandarískra alríkisyfirvalda gegn tæknirisanum Apple þar sem þau krefjast aðstoðar þess við að opna snjallsíma parsins sem framdi skotárás í San Bernardino var frestað þar sem að yfirvöld telja sig hafa aðra leið til þess að brjótast inn í símann.

Málið hefur vakið mikla athygli en Apple hefur neitað því að verða við kröfum yfirvalda um að hjálpa alríkislögreglunni FBI að komast fram hjá öryggiskerfum Iphone-síma fyrirtækisins. Útspil yfirvalda kom lögmönnum Apple í opna skjöldu sem telja það ekki vera lagalegan sigur fyrir þau. Yfirvöld hafa enn til 5. apríl til að taka ákvörðun um hvort þau haldi áfram með málið gegn Apple.

Hafi stjórnvöldum tekist að finna leið til að brjótast inn í snjallsímann eins og tölvuöryggissérfræðingar hafa fullyrt að sé hægt að gera án þess að ógna friðhelgi einkalífs allra Iphone-eigenda vekur það spurningar um hvort að þeim sé skylt að tilkynna Apple um veikleikann. Fyrirtækið myndi nær örugglega stoppa upp í það gat. Lögmenn fyrirtækisins sögðu að þeir myndu krefjast þess að stjórnvöld skýrðu frá því hvernig þau komust inn í símann ef þeim tekst það.

Utanaðkomandi aðili benti á aðra leið

Engu að síður hafa yfirvöld fram að þessu fullyrt í eiðsvörnum yfirlýsingum fyrir dómstólnum að Apple hafi eitt tæknilega getu til þess að opna símann. Stjórnvöld vildu að fyrirtækið notaði hugbúnað sem það á til þess að slökkva á sumum öryggiskerfum símans eins og því sem eyðir minni hans ef rangt lykilorð er slegið inn tíu sinnum í röð.

The Guardian hefur eftir ónefndum heimildamanni innan bandarísku löggæslunnar að utanaðkomandi aðili hafi sett sig í samband við yfirvöld á sunnudag og bent á mögulega leið til að opna símann án aðkomu Apple.

Frétt The Guardian af máli bandarískra yfirvalda gegn Apple

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert