Tvær sprengingar í Brussel

AFP

Tvær sprengingar heyrðust á Zaventem-flugvelli í Brussel í morgun. Reykur kemur frá einni af brottfararálmu flugstöðvarinnar samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Fjölmiðlar greina frá því að nokkrir hafi látist og særst en ekki liggur fyrir nákvæmlega hversu margir.

Skelfing greip um sig meðal farþega sem yfirgáfu flugstöðina í ofboði líkt og sjá má á myndbandinu hér að neðan. Flugstöðin hefur verið rýmd og flugferðum aflýst. Flugvélar sem voru á leið til flugvallarsins hefur verið snúið annað.

Fréttamaðurinn Anna Ahronheim hjá sjónvarpstöðinni i24news segir á Twitter-síðu sinni að 11 hafi látið lífið og allavega 20 særst. Það hefur ekki fengist staðfest en fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að tveir séu alvarlega slasaðir. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC segir nokkra látna og særða og hefur það eftir belgíska slökkviliðinu.

Fram kemur á fréttavef Sky sjónvarpsstöðvarinnar að hleypt hafi verið af skotum og kallað á arabísku í flugstöðinni. Vísað er í belgísku fréttaveituna Belga í þeim efnum. Fréttamaður Sky sem var á flugvellinum segir að óttast sé að fleiri árásir kunni að verða gerðar í kjölfarið.

Rifjað er upp í erlendum miðlum að aðeins þrír dagar séu síðan Salah Abdeslam var handtekinn í Brussel en hann er talinn hafa verið höfuðpaurinn á bak við hryðjuverkaárásirnar í París, höfuðborg Frakklands, í nóvember á síðasta ári.

Fréttin verður uppfærð.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert