Með langa glæpaferla að baki

Khalid og Ibrahim voru bræður.
Khalid og Ibrahim voru bræður. AFP

Löngu áður en hann sprengdi sig í loft upp á flugvellinum í Brussel í gær var Ibrahim El Bakraoui orðinn glæpamaður. Hann og bróðir hans Khalid höfðu m.a. verið dæmdir fyrir rán, bílarán og að skjóta að lögreglu áður en þeir tóku þátt í hryðjuverkunum í Brussel í gærmorgun.

Ibrahim var þrítugur og hafði hann verið dæmdur í níu ára fangelsi árið 2010 eftir að hafa lent í byssubardaga við lögreglu. Þá tók hann þátt í vopnuðu ráni á skrifstofu Western Union þar sem lögreglumaður særðist á fótlegg.

„Ég veit ekki hvað ég á að gera“

Það er þó allt önnur birtingarmynd af Ibrahim sem kemur fram í skilaboðum sem fundust í tölvu hans eftir árásirnar. „Mín er leitað allstaðar, ekki lengur öruggur,“ skrifaði Ibrahim m.a. á tölvuna. „Ég veit ekki hvað ég á að gera.“

Bróðir Ibrahim, hinn 27 ára gamli Khalid sprengdi sig í loft upp á Maalbeek lestarstöðinni í hjarta Evrópuhverfisins í Brussel. Hann hafði verið dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2011 fyrir að hafa rænt bíl.

Á blaðamannafundi í dag var sagt að Najim Laachraoui væri enn leitað en hann var talinn hafa farið með Ibrahim og þriðja manninum á flugvöllinn í gærmorgun.

Bandaríska dagblaðið Washington Post heldur því nú fram að hann hafi einnig sprengt sig í loft upp á flugvellinum og hefur það eftir tveimur embættismönnum sem neituðu að koma fram undir nafni. 

Það þýðir að fjórði maðurinn, sem enn á eftir að nafngreina, hafi sloppið enn sé leitað. 

Laachraoui var frá Marokkó og er grunaður um að hafa smíðað sprengjurnar sem voru notaðar í árásunum í París þar sem 130 létu lífið. Rannsakendur fundu leifar af erfðaefni hans á sprengjum sem notaðar voru í París, þar á meðal í Bataclan tónleikahöllinni þar sem 80 létu lífið.

Frá vettvangi árásarinnar á flugvöllinn.
Frá vettvangi árásarinnar á flugvöllinn. AFP

Einn sá fyrsti til Sýrlands

Laachraoui ólst upp í hverfinu Schaerbeek sem er þekkt fyrir fjölmenningu. Hann hefur verið eftirlýstur vegna árásanna í París síðan í desember en  undir fölsku nafni. Aðeins í síðustu viku komust yfirvöld af réttu nafni hans.

Laachraoui útskrifaðist úr menntaskóla árið 2009 en fór til Sýrlands í september. Hann var einn af fyrstu Belgunum til þess að fara til Sýrlands til þess að berjast með Ríki íslams.

Hann er talinn hafa snúð aftur til Evrópu í september undir fölsku nafni og komist inn í landið með fölsuðum skilríkjum.

Að minnsta kosti 31 lét lífið í árásunum í gær og rúmlega 270 eru særðir.

Belgíska fánanum flaggað í hálfa stöng í dag.
Belgíska fánanum flaggað í hálfa stöng í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert