Starfsmenn Zavantem minntust látinna

Starfsmenn flugvallarins og ættingjar þeirra minntust fórnarlambanna.
Starfsmenn flugvallarins og ættingjar þeirra minntust fórnarlambanna. AFP

Hundruð starfsmanna Zaventem-flugvallarins í Brussel tóku þátt í minningarathöfn í kvöld vegna fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í borginni í gærmorgun.

Þeir gengu þöglir um svæðið, skammt frá flugvellinum, og héldu á blómum og kertum sem þeir lögðu svo niður á jörðina.

Að minnsta kosti 15 manns fórust í árásinni sem varð gerð á flugvellinum.

AFP

„Þetta hefði getað komið fyrir mig,“ sagði Gregory Lupant, öryggisvörður, sem bætti við að hann hefði áhyggjur af vinnufélögum sínum sem hann hefði ekki heyrt frá og einnig af þeim sem höfðu misst fótlegg eða fingur.

Um 20 þúsund manns starfa á flugvellinum og búa margir þar í grenndinni.

Fjölskyldur sumra starfsmanna mættu einnig til að taka þátt í þessari tilfinningaþrungnu athöfn þar sem fólk faðmaði hvert annað og talaði um hvar það hefði verið þegar sprengingarnar urðu.

AFP

„Ég var heppin en mér líður illa út af öllum hinum,“ sagði Leila, sem starfar í verslun á flugvellinum. Hún var í fríi í gær.

Eiginmaður hennar, sem einnig starfar í Zaventem, og fjögurra ára dóttir þeirra, tóku þátt í athöfninni.

„Ég útskýrði fyrir dóttur minni að það hefðu verið erfiðleikar í vinnunni  hjá mömmu og pabba og að fólk hafi átt um sárt að binda.“

AFP

Fyrr í dag var haldin mínútu þögn í Belgíu til að minnast fórnarlambanna, sem voru 31 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert