Tveir Svíar létust í árásunum

AFP

Tvær sænskar konur létust í hryðjuverkunum í Brussel á þriðjudag. Seint í gærkvöldi fékk sænska utanríkisráðuneytið staðfest að þrítug sænsk kona sé meðal þeirra sem létust á lestarstöðinni í Maelbeek.  Áður hafði fengist staðfest að kona um sextugt hafi látist í árásinni á flugvellinum.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins í dag fékkst þetta staðfest hjá utanríkisráðuneytinu en þrítuga konan var eini Svíinn sem enn var saknað eftir árásirnar sem kostuðu 31 lífið.

Vitað var að konan, sem býr í Umeå sem starfar í Brussel, hefði átt að vera á lestarstöðinni þegar árásarmaðurinn sprengdi sig upp. Í frétt SVT kemur fram að búið sé að ná í ættingja konunnar og láta þá vita.

Upplýsingar um konuna sem lést á flugvellinum bárust í gærmorgun en réttarmeinafræðingar frá Svíþjóð hafa aðstoðað starfssystkini sín í Brussel frá því á föstudag við að bera saman lífsýni.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, sendir fjölskyldum kvennanna samúðaróskir fyrir hönd sænsku þjóðarinnar. Mikilvægt sé að Evrópubúar standi saman gegn hryðjuverkamönnum sem vilji sundra samhug íbúa álfunnar. 

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert