Apple vill svör frá FBI

Ekki er vitað hvort að hægt sé að nýta veikleikann …
Ekki er vitað hvort að hægt sé að nýta veikleikann sem FBI fann í iPhone 5C síma árásarmannsins til að brjótast inn í önnur tæki Apple. AFP

Öryggisveikleiki í iPhone-síma skotárásarmanns í San Bernardino sem bandaríska alríkislögreglan FBI notfærði sér til að opna símann gæti ógnað öryggi milljóna snjalltækja fyrirtækisins. Apple vill því að FBI upplýsi hvernig henni tókst að brjótast inn í símann án aðstoðar framleiðandans.

FBI tilkynnti í gær að henni hefði tekist að opna síma Syed Rizwan Farook sem myrti fjórtán manns í slagtogi við eiginkonu sína í desember. Áður hafði lögreglan stefnt Apple til að fá fyrirtækið til þess að opna símann en það neitaði með vísan í friðhelgi einkalífs og tölvuöryggi viðskiptavina sinna.

Lögfræðingar Apple eru nú sagðir rannsaka hvaða lagaúrræðum þeir geta beitt til þess að knýja alríkislögregluna til þess að láta fyrirtækinu upplýsingarnar í té. Alríkislögreglan hefur ekki verið á þeim buxunum.

„Besti möguleiki Apple er að flytja sannfærandi rök fyrir því að það sé í þágu þjóðaröryggis að upplýsa um þennan veikleika að því leyti að ef ekki er upplýst um hann og hann verður óþekktur getur það mögulega sett saklausa notendur í hættu á að verða fyrir gagnaleka,“ segir Justin Olson frá öryggishugbúnaðarfyrirtækinu AVG Technologies við Los Angeles Times.

Hættan er sú að nú þegar heimsbyggðin veit að það er hægt að hakka sig inn í iPhone-síma þá muni glæpamenn freista þess að finna sama veikleika og FBI nýtti sér.

Frétt Los Angeles Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert