Reiði vegna umdeildrar niðurstöðu

Frönsk úrskurðarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að yfirmanni á hágreiðslustofu hafi verið heimilt að nota níðyrðið „pédéraste“ um einn starfsmanna, þar sem „það er þekkt staðreynd að hárgreiðslumeistarar ráða reglubundið samkynhneigða til starfa“.

Péderaste þýðir upphaflega „sá sem elskar drengi“.

Gagnrýnendur óttast að niðurstaðan muni ýta undir fordóma gegn samkynhneigðum.

Orðið notaði yfirmaðurinn í textaskilaboðum sem hún sendi á starfsmanninn fyrir mistök. Starfsmaðurinn var á reynslutíma en í skilaboðunum stóð:

„Ég ætla ekki að halda [nafn kæranda], ég tilkynni honum það á morgun. Mér líkar ekki við þennan náunga, hann er pede, þeir eru allir til vandræða.“

Starfsmaðurinn kærði uppákomuna til nefndar sem úrskurðar í málum starfsmanna og vinnuveitenda. Sagði hann að honum hefði verið mismunað vegna kynhneigðar sinnar og að umrædd textaskilaboð hefðu sært hann djúpt.

Að sögn lögmanns starfsmannsins þurfti hann að leita sér sálfræðiaðstoðar um nokkurt skeið.

Forsvarsmenn hágreiðslustofunnar báru við því að starfsmaðurinn hefði verið hægur og ekki passað í hópinn. Þá hefði hann neitað að vinna ákveðin verk og stefnt of snemma að því að komast í stjórnunarstöðu.

Nefndinni þóttu textaskilaboðin óviðeigandi en sögðu orðið sem yfirmaðurinn notaði ekki lýsa hómófóbíu, þar sem hárgreiðslustofur réðu oft samkynhneigða starfsmenn.

Það vekur athygli að starfsmanninum voru engu að síður dæmdar bætur þar sem meiðandi orð voru notuð.

Úrskurðurinn hefur verið fordæmdur meðal sérfræðinga og leikmanna.

„Hómófób sem ræður samkynhneigða starfmenn er samt hómófób,“ tísti einn netverji.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert