„Barn sem kom að drepa börn“

Ættingjar og vinir syrgja fórnarlömb sjálfsmorðsárásarinnar í Asriya.
Ættingjar og vinir syrgja fórnarlömb sjálfsmorðsárásarinnar í Asriya. AFP

Sorg hangir yfir þorpinu Asriya í Írak þar sem sjálfsmorðssprengjumaður svipti íbúana á þriðja tug sona sinna eftir fótboltaleik barnanna fyrir tveimur vikum. Árásarmaðurinn var sjálfur aðeins táningur að aldri. Hann var „barn og hann kom til að drepa börn,“ segir einn höfðingja svæðisins.

Knattspyrna er ástríða drengja í Asriya, þorpi sem er rúmlega sextíu kílómetra suður af höfuðborginni Bagdad þar sem súnníar og sjítar búa saman. Bandaríkjaher hefur kallað svæðið „Þríhyrning dauðans“. Boltaleikurinn gefur börnunum tækifæri til að gleyma sér og eygja von um bjartari framtíð.

Þess vegna voru mörg þeirra saman komin til að taka þátt í og fylgjast með úrslitaleik yngri flokka í héraðinu sem var leikinn á rykugum velli í miðju Asriya. Samkvæmt frásögn Washington Post tók enginn eftir unga manninum sem fylgdist með leiknum klæddur í þykkan jakka þótt hlýtt væri í veðri og allir hinir drengirnir væru á stuttermabolum.

Medalía og blóm hafa verið skilin eftir þar sem sjálfsmorðssprengjumaðurinn …
Medalía og blóm hafa verið skilin eftir þar sem sjálfsmorðssprengjumaðurinn myrti tugi barna í lok mars. AFP

Anmar al-Janabi, sem er tólf ára gamall, segist þó hafa tekið eftir piltinum sem var undarlega klæddur en honum hafi þó ekki dottið í hug að láta þá fullorðnu vita.

„Hann var svolítið hávaxinn með sítt hár og hann leit öðruvísi út. Hann var í þykkum jakka og það var heitt. Hann talaði við okkur. Hann sagði: „Þetta er góður leikur, er það ekki?“,“ segir Anmar.

Eftir leikinn hópuðust viðstaddir að verðlaunapalli til að fylgjast með því þegar bikarinn og medalíur væru afhentar liðunum. Það var þá sem velklæddi pilturinn sprengdi sig í loft upp.

Fáir foreldrar höfðu fylgt börnunum sínum á völlinn enda búa flestir þeirra örskammt frá honum. Þegar sprengingin reið yfir dreif fólk að úr öllum áttum til að kanna hvað hefði gerst. Við þeim blasti ófögur sjón líkamshluta og blóðs barnanna þeirra.

„Við fundum parta af börnunum. Það var mannshold út um allt. Þetta var eins og heimsendir,“ segir Ibtisam Hamid sem missti sextán ára gamlan son sinn, Walid, í hryðjuverkinu.

Ættingjar og vinir bera kistu og halda á lofti mynd …
Ættingjar og vinir bera kistu og halda á lofti mynd af einu fórnarlamba sjálfsmorðssprengjuárásarinnar í Asriya. AFP

Alls létust 43 í sprengingunni sem Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á. Af þessum 43 voru 29 drengir yngri en sautján ára gamlir. Ríki íslams segir að skotmarkið hafi verið hópur vopnaðrar sveitar sjíta, Hashad al-Shaabi. Héraðsstjórnin segir að tveir meðlimir hennar hafi fallið í árásinni. Á mynd sem hryðjuverkasamtökin birtu af árásarmanninum virðist hann ekki vera eldri en 15 eða 16 ára.

Mohammed al-Juhaishi, einn höfðingja svæðisins, segir að sjálfsmorðssprengjumaðurinn hafi verið „barn sem kom til að drepa börn“.

„Þetta var fótboltaleikur barna. Auðvitað vissi hann að hann væri að fara að drepa börn,“ segir Juhaishi sem sjálfur missti fimm skyldmenni sín í blóðbaðinu. 

Nú tveimur vikum síðar er þorpið enn í áfalli og hanga svartir borðar á húsveggjum heimila margra þeirra sem misstu börn sín þennan dag. Engin man hvernig leikurinn fór en sigurliðið hefur ekki vitjað bikarsins. Hann situr enn á árásarstaðnum ásamt boltum, treyjum og íröskum fánum sem þorpsbúar hafa skilið eftir til minningar um fórnarlömbin.

Sigurliðið hét Salam. Það þýðir „friður“.

Umfjöllun Washington Post um sjálfsmorðsárásina í Asriya

Fyrri frétt mbl.is: Sprengdi sig upp eftir fótboltaleik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert