Nálgast samkomulag við lánadrottna

Frá mótmælum bænda á grísku eyjunni Krít í febrúar. Mótmæltu …
Frá mótmælum bænda á grísku eyjunni Krít í febrúar. Mótmæltu þeir fyrirhuguðum breytingum á lífeyrissjóðskerfi landsins. AFP

Tvö frumvörp verða lögð fyrir gríska þingið í næstu viku. Annað þeirra felur í sér miklar breytingar á lífeyrissjóðskerfi landsins og hitt um tekjuskatt. Er þetta liður í aðgerðum stjórnvalda í átt að umbótum í landinu til þess að ná samningum við lánardrottna landsins.

Frá þessu greinir AFP-fréttaveitan en hlé var gert á viðræðum grískra stjórnvalda og lánardrottna landsins, þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabanka Evrópu, Evrópuráðsins og björgunarsjóðs evruríkjanna (ESM) í gær. Talsmaður grísku ríkisstjórnarinnar segir að viðræðurnar hafi þokast í rétta átt.

Fjármálaráðherra Grikklands, Euclid Tsakalotos, sagði í samtali við fjölmiðla að endanleg niðurstaða í viðræðum landsins við lánardrottna liggi fyrir í allra síðasta lagi 26. apríl nk. en líklega eigi síðar en 22. apríl. „Við erum við það að ná samningum við stofnanirnar,“ sagði hann.

Viðræður grískra stjórnvalda og lánardrottna hafa að mestu leyti snúist um breytingar á lífeyrissjóðskerfi landsins og sölu ríkisbankanna. Vilja lánardrottnarnir að Grikkland selji bankana til sjóða sem sérhæfa sig í að greiða úr rekstri skuldsettra fjármálafyrirtækja.

Þá hefur orkumálaráðuneyti Grikklands gefið það út að a.m.k. fimmtungshlutur ríkisins í orkufyrirtækinu Admie verði seldur, en fyrirtækið heldur úti dreifikerfi fyrir raforku.

Í frétt AFP segir að Grikkland þurfi að ná samkomulagi við lánardrottna landsins til þess að geta staðið í skilum á afborgunum sem nema um þremur og hálfum milljarði evra í júlí nk. vegna skuldabréfa í eigu Seðlabanka Evrópu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert