Notfæra sér börn í auknum mæli

Börn í Chibok. Nú eru tæp tvö ár síðan að …
Börn í Chibok. Nú eru tæp tvö ár síðan að rúmlega 200 stúlkum var rænt þaðan af Boko Haram. AFP

Einn af hverjum fimm sjálfsmorðssprengjuárásarmönnum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram er barn. Sameinuðu þjóðirnar greina frá þessu en samtökin hafa ráðist á almenna borgara í Kamerún, Nígeríu og Tsjad.

Hryðjuverkasamtökin hafa notfært sér börn í auknum mæli síðasta árið og í ¾ tilvika sem þeir nota börn nota þeir ungar stúlkur og annað hvort láta þeir þær sprengja sig upp eða gera það með fjarstýrðum búnaði. Eru þær yfirleitt undir áhrifum eiturlyfja að sögn Sameinuðu þjóðanna. Árið 2014 voru börn notuð í fjórum árásum samtakanna en þær voru 44 talsins árið 2015 og í janúar 2016.

Árásir Boko Haram hafa staðið yfir í sjö ár og hafa hryðjuverkamennirnir aðallega herjað á svæði í norðaustur Nígeríu en einnig í nágrannaríkjunum. 17.000 hafa látið lífið í árásum samtakanna.

Að sögn Unicef hefur 1,3 miljónir barna þurft að flýja heimili sín vegna samtakanna í Kamerún, Tsjad, Nígeríu og Níger.

Nú eru tæp tvö ár síðan að rúmlega 200 stúlkum var rænt af liðsmönnum samtakanna í borginni Chibok í Nígeríu. Úr varð alþjóðlega hreyfingin „Bring Back Our Girls“, en þær eru enn ófundnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert