Boko Haram birtir myndband

Yana Galang, móðir einnar stúlkunnar sem var numin á brott, …
Yana Galang, móðir einnar stúlkunnar sem var numin á brott, Rifkatu Galang, þerrar tárin í viðtali sem var tekið við hana 5. apríl síðastliðinn. AFP

Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa sent frá sér myndband sem sýnir fimmtán af þeim rúmlega tvö hundruð stúlkum sem var rænt úr bænum Chibok í norðausturhluta Nígeríu fyrir tveimur árum.

Í myndbandinu sjást stúlkurnar klæddar svörtum sloppum á ótilgreindum stað. Þær segja nöfnin sín, segjast hafa verið numdar á brott frá Chibok og nefna einnig daginn sem upptakan var gerð, 25. desember 2015.

Hér má sjá umfjöllun CNN um málið með myndbandinu.

Tvær mæður sem eiga stúlkur sem hurfu 14. apríl 2014 þekktu dætur sínar í myndbandinu. Þriðja móðirin sem sá myndbandið kom ekki auga á dóttur sína. Allar mæðurnar gátu borið kennsl á allar stúlkurnar sem þar sáust.

Yana Galang heldur á síma með mynd af dóttur sinni.
Yana Galang heldur á síma með mynd af dóttur sinni. AFP

Myndbandið bendir til þess að stúlkurnar, að minnsta kosti hluti þeirra, séu enn á lífi. Síðasta myndband með þeim var sent út í maí 2014.

Þá voru um 100 stúlkur sýndar í íslömskum kjólum og lásu þær upp úr kóraninum eftir að Abubakar Shekau, leiðtogi Boko Haram, kvaðst hafa snúið þeim til íslamstrúar.

Upplýsingaráðherra Nígeríu, Lai Hohammed, sagði við CNN að svo virtist sem stúlkurnar væru ekki undir neinu álagi og útlit þeirra virtist ekki hafa breyst.

Hann vildi ekkert tjá sig um samningaviðræður við Boko Haram en samtökin hafa áður sagt að þau muni eingöngu sleppa stúlkunum í skiptum fyrir vígamenn þeirra sem eru í fangelsum í Nígeríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert