Golf ekki lengur glæpur í Kína

Kínverski kylfingurinn Chen Jin hefur líklega ekki verið meðlimur í …
Kínverski kylfingurinn Chen Jin hefur líklega ekki verið meðlimur í Kommúnistaflokknum þar sem þeim hefur verið bannað að spila golf þar til nú. AFP

Kommúnistaflokkur Kína telur golf ekki lengur glæpsamlegt. Meðlimum flokksins var bannað að iðka íþróttina í fyrra í kjölfar átaks gegn spillingu. Golfvellir hafa verið taldir vettvangur fjárplógsstarfsemi þar sem spilltir embættismenn þiggja mútur frá athafnamönnum sem sækjast eftir ívilnunum.

Mao Zedong bannaði golf á sínum tíma en hann fyrirleit íþróttina og taldi hana aðeins fyrir milljónamæringa. Leikurinn náði þó nokkurri útbreiðslu á 9. og 10. áratug síðustu aldar áður en Xi Jinping, forseti, bannaði 85 milljónum flokksmanna Kommúnistaflokksins að spila golf í fyrra.

„Golfvellir eru að hægt og bítandi að breytast í skuggalegan vettvang þar sem skipt er á peningum fyrir völd,“ sagði eitt ríkisrekið dagblað í fyrra.

Nú virðist forysta flokksins hafa mildað afstöðu sína til golfs.

„Fyrst að þetta er bara íþrótt þá er ekkert rétt eða rangt við að spila golf,“ segir í grein í opinberu fréttariti ríkisstofnunarinnar sem berst gegn spillingu.

Í dagblaðinu China Daily kemur fram að embættismenn geti spilað golf á sama tíma og landið reynir að taka á spillingu og hvetja til aðhalds ef þeir borga fyrir sig sjálfir.

„Að spila golf er ekki glæpur í sjálfu sér,“ segir blaðið.

Frétt The Guardian 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert