Fletta ofan af 17.000 gervistarfssmönnum

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, segir „óskiljanlegum“ fjárhæðum hafa verið stolið …
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, segir „óskiljanlegum“ fjárhæðum hafa verið stolið úr hirslum ríkisins undanfarna áratugi. AFP

Yfirvöld í Nígeríu tilkynntu í dag  að þau hafi flett ofan af 17.000 gervistarfsmönnum á launaskrá ríkisins. Er fjöldi þeirra gervistarfsmanna sem fundist hafa á launaskrá ríkisins þar með kominn upp í 37.000.

Talsmaður Efnahagsbrotastofnunarinnar sagði AFP-fréttastofunni að fundurinn kæmi í kjölfar endurskoðunar hjá Fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun.

Það var síðast í febrúar sem Fjármálaráðuneytið greindi frá því að það hefði fjarlægt 20.000 gervistarfsmenn af launaskrá ríkisins og þar með sparað ríkissjóði háar fjárhæðir í launagjöld.

Ibrahim Magu, stjórnarformaður Efnahagsbrotastofnunarinnar segir að búið sé að finna 37.395 gervistarfsmenn á starfsmannalistum hins opinbera.

„Rannsókn okkar til þessa bendir til þess að stjórnvöld hafi tapað allt að einum milljarði naira [þ.e. ríflega 600 milljónum íslenskra króna] í hendur þessa gervistarfsmanna,“ sagði Magu.

Sú tala kann þó að eiga eftir að hækka enn frekar að sögn Magu, sem telur fleiri gervistarfsmenn geta leynst á launaskránni.

Endurskoðunin á starfsmönnum ríkisins er hluti stærra verkefnis sem ætlað er að draga úr spillingu, sem Muhammadu Buhari forseti Nígeríu segir að hafi orðið til þess að „óskiljanlegum“ fjárhæðum hafi verið stolið úr hirslum ríkisins undanfarna áratugi.

Buhari kvartaði yfir því, er hann tók við embætti forseta á síðasta ári, að síðasta ríkisstjórn hefði skilað ríkiskassanum tómum og er honum mikið í mun að auka tekjur ríkisins á erfiðum efnahagstímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert