Sprengjumaður vann á flugvellinum

Zavantem-flugvöllurinn í Brussel.
Zavantem-flugvöllurinn í Brussel. AFP

Annar af hryðjuverkamönnum sem sprengdu sjálfa sig í loft upp á Zavantem-flugvellinum í Brussel í síðasta mánuði starfaði þar í fimm ár, til ársins 2012.

Þetta kom fram á belgísku sjónvarpsstöðinni VTM.

Áður hafði komið fram að Najim Laachraoui hafði unnið um skamma hríð við ræstingar hjá Evrópuþinginu fyrir þó nokkrum árum síðan.

Laachraoui sprengdi sig í loft upp 22. mars, ásamt vitorðsmanni sínum. Sama dag var gerð hryðjuverkaárás á neðanjarðarlestarstöð. Alls fórust 32 manns í árásunum.  

Ekki kom fram í frétt VTM við hvað Laachraoui starfaði nákvæmlega.

Hryðjuverkamaðurinn, sem var 24 ára og stundaði eitt sinn nám í rafmangsverkfræði, er einnig grunaður um að hafa búið til sprengju sem var notuð í árásunum í París í nóvember í fyrra. Þar fórust 130 manns.

Ríki íslams hefur lýst báðum árásunum á hendur sér.

Najim Laachraoui á flugvellinum skömmu áður en hann sprengdi sig …
Najim Laachraoui á flugvellinum skömmu áður en hann sprengdi sig í loft upp. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert