Blóðugur dagur í Sýrlandi

Sýrlenskur maður hleypur með særða konu eftir loftárásir í Aleppo …
Sýrlenskur maður hleypur með særða konu eftir loftárásir í Aleppo í dag. AFP

Að minnsta kosti 27 almennir borgarar létu lífið í loftárásum sýrlenska stjórnarhersins í dag. Herinn herjaði á svæði undir stjórn uppreisnarmanna þrátt fyrir að vopnahlé sé enn í gildi.

Tólf létu lífið í Aleppo og þrettán í bænum Douma, austan við Damaskus. Þá létu tveir menn lífið í loftárásum stjórnarhersins á bæinn Talbisseh í Homs héraði.

Formaður Syrian Observatory for Human Rights, Abdel Rahman, sagði í dag augljóst að vopnahléið hafi mistekist.

Árásirnar á Aleppo byrjuðu um klukkan 10 í morgun að staðartíma (7 að íslenskum tíma) á fjölmörg hverfi borgarinnar. Flestir létu lífið í Tareeq al-Bab hverfinu.

Þá særðust að minnsta kosti níu í öðrum hverfum.

25 almennir borgarar létu lífið og 40 særðust í loftárásum í Aleppo í gær. Borgin var áður helsta viðskiptaborg landsins en hefur nú verið elngi skipt í tvennt með stjórnarhermönnum í vestri og uppreisnarmönnum í austri.

Í árásunum í Douma voru það m.a. þrjár konur og tvö börn sem létu lífið. Eins og fyrr segir létu 13 lifið og voru þeir allir almennir borgarar.

Rúmlega 270.000 manns hafa látið lífið í stríðinu í Sýrlandi síðan að það hófst árið 2011.

Særðir íbúar Aleppo fluttir af heimilum sínum í morgun.
Særðir íbúar Aleppo fluttir af heimilum sínum í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert