Clinton skoðar mögulega meðframbjóðendur

Clinton er byrjuð að velta fyrir sér hver skyldi vera …
Clinton er byrjuð að velta fyrir sér hver skyldi vera meðframbjóðandi hennar í nóvember. AFP

Hillary Clinton er nú byrjuð að íhuga hver skyldi vera meðframbjóðandi hennar í forsetakosningunum í nóvember hljóti hún útnefningu demókrata í forvalinu.

Allar líkur virðast nú vera á því að Clinton verði fyrir valinu í forvalinu en hún er með mikið forskot á andstæðing sinn, Bernie Sanders.

The New York Times heldur því fram að ráðgjafar og bandamenn Clinton hafi hafið viðræður um hver myndi bjóða sig fram sem varaforsetaefni Clinton og hafa þeir sett saman lista yfir 15-20 mögulega. Á Clinton að vera opin fyrir því að fá varaforsetaefni sem er kvenkyns.

Valkostir Clinton byggja þó að miklu leyti á hver myndi vera andstæðingur hennar í sjálfum forsetakosningunum en allar líkur eru á því að það verði Donald Trump. 

Að sögn ráðgjafa Clinton er þingkonan Elizabeth Warren á listanum en hún hefur ekki enn lýst opinberlega yfir stuðning við Clinton. Önnur nöfn í umræðunni eru þingmennirnir Tim Kaine, Mark Warner og Sherrod Brown ásamt Deval Patrcik, fyrrverandi ríkisstjóra Massachusetts.

Að sögn sérfræðinga vestanhafs er ákvörðun Clinton um að byrja að skoða meðframbjóðendur merki um þrýstinginn á Bernie Sanders um að hætta framboði sínu.

Clinton hefur ekki sjálf kallað eftir því að Sanders viðurkenni ósigur en stuðningsmenn eru farnir að tjá sig meira um það að þingmaðurinn frá Vermont eigi engan möguleika á að sigra.

Aðeins á eftir að kjósa í nítján ríkjum og kosið verður í fimm þeirra á þriðjudaginn. Talið er að Clinton muni bæta hressilega við hóp kjörmanna á þriðjudaginn hún er þegar komin með 1.941. 2.383 kjörmenn þarf til þess að hljóta útnefningu demókrata en Sanders er með 1.240.

Sanders hélt því þó fram í dag að hann hefði enn möguleika á að hljóta útnefninguna. „Ég er ekki að segja að það verði auðvelt, en ég held við getum það. Það sem skoðanakannanirnar sýna að við erum með góða möguleika á að vinna í mörgum ríkjum, þar á meðal Kaliforníu sem er stærsta ríkið okkar,“ sagði hann á CNN í dag.

Sanders er með mikil fylgi meðal ungra kjósenda og hvítum meðlimum verkamannastéttarinnar í landinu þar sem hann leggur mikla áherslu á launajöfnuð. Þá hefur hann gagnrýnt spillingu innan bandarísku bankanna og Wall Street.

Sanders hefur ítrekað rætt um tengingar Clinton við Wall Street og stuðning sem hún fær frá stóru bönkunum. Sanders benti líka á að á landsvísu myndi honum farnast betur í forsetakosningunum gegn öllum mögulegum frambjóðendum repúblikana.

Þó er það ljóst að ef Sanders tapar á þriðjudaginn verður pressan um að stíga til hliðar enn meiri.

Þingmaðurinn Elizabeth Warren er sögð vera á lista Clinton.
Þingmaðurinn Elizabeth Warren er sögð vera á lista Clinton. AFP
Bernie Sanders neitar að gefast upp.
Bernie Sanders neitar að gefast upp. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert