Bretar segi sig frá mannréttindasáttmálanum

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands.
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands. AFP

Mannréttindasáttmáli Evrópu dregur úr öryggi Bretlands og Bretar ættu að segja sig frá honum óháð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlega úrgöngu þeirra úr Evrópusambandinu, að sögn Theresu May, innanríkisráðherra Bretlands. Ummælin hafa vakið harða gagnrýni.

May sagði að það væri mannréttindasáttmálinn frekar en Evrópusambandið sem hafi tafið brottvísun öfgamannsins Abu Hamza frá Bretlandi um fleiri ár og kom næstum því í veg fyrir brottvísun íslamistans Abu Qatada.

„Mannréttindasáttmálinn getur bundið hendur þingsins, hann bætir engu við hagsæld okkar, hann gerir okkur minna örugg með því að koma í veg fyrir brottvísun hættulegra erlendra ríkisborgara og hann gerir ekki til að breyta viðhorfum ríkisstjórna eins og þeirrar í Rússlandi þegar kemur að mannréttindum,“ sagði May í ræðu sem var ætlað að tala fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB.

Fullyrti hún að Bretar ættu ekki að ganga úr ESB heldur segja sig frá sáttmálanum og lögsögu hans. May hefur verið nefnd sem eftirmaður Davids Cameron, forsætisráðherra, sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Er ræða hennar talin hafa verið átt að vera mótvægi við baráttu Cameron fyrir því að Bretar haldi sig í ESB en hún hefur verið talin vera of neikvæð og ala á ótta.

Fulltrúar Verkamannaflokksins segja ummæli May um mannréttindasáttmálann hins vegar forkastanleg. Skuggainnanríkisráðherrann, Charles Falconer, sakar May um að fórna skuldbindingu Breta við mannréttindi til 68 ára á altari eign metnaðar um að taka við stjórnvelinum í Íhaldsflokkinum.

„Þetta er svo heimskulegt, svo ófrjálslynt, svo misráðið,“ segir Falconer sem telur að það myndi skaða stöðu Breta á meðal þjóða ef þeir segðu sig frá sáttmálanum. Hann bendir meðal annars á að aðild að sáttmálanum sé skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Frétt The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert