Óhugnanlegt og dapurlegt

Farþegar geta ritað skilaboð á stóra töflu sem hefur verið …
Farþegar geta ritað skilaboð á stóra töflu sem hefur verið komið fyrir á lestarstöðinni. AFP/JOHN THYS

Maelbeek neðanjarðarlestarstöðin í Brussel, þar sem 16 létust í hryðjuverkaárás 22. mars sl., hefur verið opnuð á ný. Mikil öryggisgæsla er við lestarstöðina og þá hefur verið komið upp minningartöflu þar sem farþegar geta ritað skilaboð til minningar um látnu.

Fólkið lést þegar Khalid El-Bakraoui sprengdi sig í loft upp um kl. 7, en þá hafði önnur árás verið gerð á brottfararsvæði alþjóðaflugvallar borgarinnar.

Farþegar sem lögðu leið sína um lestarstöðina í morgun, þar sem blóðugir farþegar sáust streyma út í kjölfar árásarinnar, sögðu óhugnalegt að fara þar um.

„Það setur að manni óhug, og dapurleika, þannig að ég flýtti mér í gegn,“ sagði Vanessa Salembier, starfsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. „Því miður þarf ég að fara hérna um á hverjum morgni og að kvöldi.“

Á brautarpöllunum standa verðir vopnaðir sjálfvirkum skotvopnum en á minningartöflunni stendur m.a.: „Hlúum að lífinu umhverfis okkur.“

„Ég skyldi eftir blóm og skrifaði nokkur orð... til að segja að hvað sem öðru líður, þá er Brussel sigurvegarinn,“ segir hjúkrunarneminn Solene Leroy.

Alls létust 32 í árásunum á lestarstöðina og flugvöllinn og 300 særðust. Fjölskyldur fórnarlambanna áttu þess kost að heimsækja lestarstöðina á laugardag, áður en hún var opnuð almenningi.

„Ég las allt á veggnum og það sem hafði mest áhrif á mig voru skilaboðin „Ástin vinnur“, því ég trúi því sjálfur,“ segir Tomaso Comazzi, lærlingur hjá Evrópusambandinu.

Vopnaðir verðir gæta öryggis á lestarstöðinni.
Vopnaðir verðir gæta öryggis á lestarstöðinni. AFP/JOHN THYS

„Lífið heldur áfram“

„Þetta var dálítið skrýtið. En við getum ekki dvalið við þetta, lífið heldur áfram,“ segir Patrick, 52 ára, sem var meðal fyrstu farþega til að leggja leið sína um lestarstöðina í morgun.

Þrátt fyrir annríki mánudagsmorguns var andrúmsloftið á stöðinni yfirvegað og fólk almennt þolinmótt gagnvart hinni löngu lokun frá árásinni.

Lokunin „átti sér eðilegar ástæður“, segir hin franska Liliana, kjarnorkuverkfræðingur sem starfar í Brussel. „Ég get skilið að það hafi þurft að grandskoða allar skemmdir, ég hef skilning á því.“

Dagurinn í dag var fyrsti dagurinn sem allt neðanjarðarlestarkerfið gekk sem skyldi. Frá 22. mars hafa margar stöðvar verið lokaðar og þá hafa opnunartímar verið styttir vegna skorts á starfsfólki í öryggisgæslu.

Samkvæmt yfirvöldum munu lögregla og starfsmenn hersins skipta með sér gæslu og þá verða aðeins tveir inngangar opnir á hverri stöð.

Ekki er gert ráð fyrir að starfsemi flugvallarins komist í samt horf fyrr en í júní nk.

Það er eflaust sérstök upplifun að fara um stöðina í …
Það er eflaust sérstök upplifun að fara um stöðina í kjölfar þess voðaverks sem þar var framið. AFP/JOHN THYS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert