3.048 dauðsföll á einu ári

Úr flóttamannabúðum fyrir þá sem hafa þurft að flýja Boko …
Úr flóttamannabúðum fyrir þá sem hafa þurft að flýja Boko Haram AFP

Fjöldi þeirra sem létu lífið og særðust í árásum Boko Haram í Nígeríu jókst um 190% á síðasta ári og þá jókst notkun sjálfsmorðssprenginga um 167%. Árið 2015 létu 3.048 lífið í 84 árásum í Nígeríu, 96% eða 2.920 voru almennir borgarar.

Nígera er í fjórða sæti yfir þau lönd þar sem flestir létu lífið í átökum á síðasta ári. Sýrland er í fyrsta sæti, svo kemur Jemen og Írak. Afganistan er í fimmta sæti.

Árásir Boko Haram hófust árið 2009 og um 20.000 manns hafa fallið. Ungar konur og stúlkur hafa verið notaðar sérstaklega í sjálfsmorðsárásum samtakanna þar sem þær eru sprengdar upp á fjölförnum stöðum.

Boko Haram hefur einnig látið til sín taka í nágrannalöndunum en alls létust 923 almennir borgarar í árásum þeirra í Kamerún og Tsjad á síðasta ári.

Það hefur reynst stjórnvöldum í Nígeríu erfitt að berjast við Boko Haram en þrátt fyrir það hefur forseti landsins sagt að „tæknilega“ sé búið  að sigra hópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert