„Bandaríkin fyrst og fremst“

„Löndin sem við verjum verða að greiða kostnað þessarar varnar,“ …
„Löndin sem við verjum verða að greiða kostnað þessarar varnar,“ sagði Trump. AFP

Donald Trump hélt ræðu í kvöld þar sem hann gaf kjósendum fyrsta innlitið í áætlanir sínar gagnvart umheiminum, verði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna. Trump, sem er með skýrt forskot á aðra frambjóðendur repúblíkana gaf stefnu sinni heitið „Bandaríkin fyrst og fremst“

Hann kallaði utanríkisstefnu Barack Obama „algjört stórslys“ og mikið af ræðunni snerist um það sem hann kallaði „veikleika, óreiðu og ringulreið Obama stjórnarinnar“ og vonir hans um að snúa henni á haus. Hann lofaði þannig áheyrendum að hann myndi „hrista ryðið af utanríkisstefnu Bandaríkjanna“.

Trump hafði áður gefið út að hann myndi veikja hið svokallaða Ríki íslams með því að loka á allan aðgang þess að olíu auk þess sem hann hafði stutt notkun pyntinga við yfirheyrslur yfir meðlimum þess. Hann kom ekki inn á þessar hugmyndir á miðvikudag.

„Að halda aftur af útbreiðslu öfgafullrar íslamstrúar væri stórvægilegt stefnumarkmið Bandaríkjanna og raunar heimsins,“ sagði hann og bætti því við að hann myndi vinna náið með ríkjum hliðhollum Bandaríkjunum í Miðausturlöndum til að berjast gegn öfgum. Leita ætti nýrra viðræðna við bandamenn Bandaríkjanna í Nato til að reyna að endurskapa uppbyggingu stofnunarinnar og ræða það að „ná aftur jafnvægi“ hvað varðar fjárveitingar Bandaríkjanna til hennar.

Þá sagðist Trump hafa í hyggju að boða til viðræðna við Rússland, hugsanlega til að finna sameiginlegan flöt gagnvart öfgamönnum íslam.

„Sumir segja að Rússland geti ekki verið sanngjarnt,“ sagði hann. „Ég ætla að komast að því hvort það sé rétt.“

Hvað Kína varðaði sagði hann ríkið „bera virðingu fyrir styrk og með því að leyfa þeim að misnota okkur efnahagslega eins og þeir gera erum við að missa alla virðingu þeirra.“ Sagðist hann myndu reyna að „laga samband okkar við Kína“ en gaf ekki uppi aðferðarfræðina sem hann hyggðist nýta í það verkefni.

„Löndin sem við verjum verða að greiða kostnað þessarar varnar,“ sagði hann. „Ef ekki, þurfa Bandaríkin að vera tilbúin til að leyfa þessum löndum að verja sig sjálf. Við höfum ekkert val.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert