Hákarl réðist á brimbrettakappa úti fyrir Balí

Nokkrar fréttir hafa borist af hákarlaárásum úti fyrir ströndum Balí …
Nokkrar fréttir hafa borist af hákarlaárásum úti fyrir ströndum Balí undanfarin ár. CARL DE SOUZA

Tveggja metra langur hákarl réðst á bandarískan brimbrettakappa úti fyrir Balian ströndinni á Balí á mánudag og veitti honum alvarlega áverka á hend, samkvæmt upplýsingum frá læknum á sjúkrahúsinu þar sem hann hlaut meðhöndlun við sárum sínum.

Ekki er algengt að hákarlar ráðist á fólk úti fyrir ströndum Balí, en engu að síður hafa undanfarin ár borist fregnir af nokkrum slíkum árásum frá stöðum sem eru vinsælir hjá brimbrettafólki.

Ni Gusti Ayu Made Sri Pujarini, læknirinn sem meðhöndlaði brimbrettakappann Ryan Boarman sagði hann hafa verið með meðvitund þegar komið var með hann á spítalann.

„Hann sagðist hafa séð tveggja metra langan hákarl rétt áður en hann fann fyrir miklum sársauka,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Pujarini, sem staðfesti að sárin á hendi Boarman litu út eins og eftir hákarlabit og að tannförin hefðu verið greinileg.

Ástralinn Twiggy Van Ryan, sem býr í nágrenni Balian, lýsti því þegar hann sá Boarman stuttu eftir árásina og hvernig hann hefði hjálpað til við að binda um sár hans áður en farið var með hann á spítalann.  

„Þetta var frekar stórt sár, um tíu sentímetrar hvoru megin við olnbogann. Svo virðist sem olnboginn hafi allur endað í gini hákarlsins og hann var verulega illa farinn eftir að hákarlinn sleppti honum,“ sagði Van Ryan.

Tilkynnt var um a.m.k. fjórar hákarlaárásir úti fyrir strönd Balian á árabilinu 2010-2012 þar sem erlendir ferðamenn slösuðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert