Lofar blóðugri forsetatíð

Flest bendir til þess að Rodrigo Duterte verði næsti forseti Filippseyja en hann þykir vægast sagt umdeildur. Einkum fyrir það hversu berorður hann er og furðuleg stefnumál. Þannig eru ræður hans gjarnan fullar af blótsyrðum og vafasömum bröndurum. Til að mynda brandara um að nauðga áströlskum trúboða sem sat í fangelsi á Filippseyjum og var myrt þar í óeirðum í fangelsinu árið 1989. Hótaði hann því í kjölfarið að slíta stjórnmálasambandi við Bandaríkin og Ástralíu eftir að sendirherrar landanna gagnrýndu ummæli hans í þeim efnum.

Duterte nýtur mests fylgis í skoðanakönnunum sem hefur valdið stjórnmálastétt Filippeyja miklum áhyggjum, en kosningarnar fara fram 9. maí. Hefur hann lofað því að útrýma glæpum með því að láta taka tugi þúsunda glæpamanna af lífi. Duterte, sem er 71 árs að aldri, er þekkur fyrir að vera sérlega hrifinn af gagnstæða kyninu og kvensamur í meira lagi. „Ég er sklinn við konuna mína. Ég er ekki getulaus. Þannig að hvað á ég að gera? Láta hann hanga það sem eftir er? Þegar ég tek Viagra þá stendur hann upp,“ sagði hann í ræðu í dag.

Forsetaframbjóðandinn hefur sagt að hann ætti tvær hjákonur en hefur einnig heitið skattgreiðendum því að það myndi ekki kosta þá mikið að halda þeim uppi þar sem þær væru ekki dýrar í rekstri. Hann hýsti þær sjálfur á ódýrum gistihúsum þar sem hann stundaði kynlíf með þeim. Loforð hans um að útrýma glæpum með því að fyrirskipa öryggissveitum að taka glæpamenn af lífi hefur vakið mesta athygli en loforðið ætlar hann að uppfylla strax í byrjun forsetatíðar sinnar. Hefur hann heitið því að forsetatíð hans yrði blóðug.

Duterte segir að lögreglumenn og hermenn sem yrðu sakaðir um að brjóta á réttindum fólks yrði náðaðir af honum og í lok kjörtímabilsins ætlaði hann að náða sjálfan sig enda væri það hægt samkvæmt stjórnarskrá Filippseyja. „Þúsund manns verða náðaðir á dag,“ sagði hann í ræðu sinni í dag og bætti við: „Rodrigo Duterte er náðaður fyrir fjöldamorð, undirritað Rodrigo Duterte.“ Þetta kallaði fram hlátrasköll viðstaddra. Hann er sérstaklega vinsæll á meðal þeirra sem ríkastir eru í landinu en þeir hafa miklar áhyggjur af vaxandi glæpatíðni. 

Fram kemur í frétt AFP að vinsældir Duterte megi rekja til óánægju margra Filippseyinga með núverandi forseta en gengið hafi hægt hjá honum að koma á umbótum í landinu að mati stjórnmálaskýrenda. Duterte virki á kjósendur sem sterkur frambjóðandi sem lofi skjótum lausnum á djúpstæðum vandamálum eins og glæpum og spillingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert