Handtekin vegna hjónabandssvindls

Lögregla í Bandaríkjunum handtók í dag þrjá einstaklinga sem tengjast hryðjuverkaárásinni í San Bernadino í Kaliforníu í desember sl. Fólkið er grunað um hjónabandssvindl og að hafa logið að lögreglu.

Syed Raheel Farook, 31 árs, var handtekinn í morgun á heimili sínu í bænum Corona í Kaliforníu, ásamt konu sinni Tatiönu Farook. Syed er bróðir árásarmannsins Syed Raheel Farook, sem lét til skarar skríða í San Bernadino, ásamt eiginkonu sinni Tashfeen Malik.

Parið féll í skotbardaga við lögreglu.

Þriðji einstaklingurinn sem var handtekinn í dag var systir Tatiönu, Mariya Chernykh, 26 ára, sem býr í bænum Ontario.

Ákæran sem hefur verið gefin út á hendur tríóinu snýr að meintu gervi-hjónabandi Chernykh og Enrique Marquez, sem bíður réttarhalda vegna árásarinnar í desember. Hann er grunaður um að hafa aðstoðað Farook og Malik.

14 létust í árásinni.

Þrímenningarnir sem voru handteknir í dag eiga yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm fyrir að hafa logið að innflytjendayfirvöldum. Þá á Chernykh yfir höfði sér 25 ára dóm fyrir misferli og fyrir að hafa logið að alríkislögreglumönnum.

Chernykh og systir hennar eru frá Rússlandi og hjónaband Tatiönu og Syed Raheel Farook er einnig til rannsóknar.

Síðastnefndi þjónaði í bandaríska hernum á árunum 2003-2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert