Lögreglan skaut 13 ára dreng

Veggmynd af Freddie Gray. Í gær var þess minnst í …
Veggmynd af Freddie Gray. Í gær var þess minnst í Baltimore að ár er liðið frá útför hans. Hann lést í haldi lögreglunnar. AFP

Lögreglumenn í Baltimore skutu 13 ára gamlan dreng sem var með eftirlíkingu af byssu á sér. Atvikið átti sér stað í gær þegar margir minntust þess í borginni að ár var liðið frá því að Freddie Gray var borinn til grafar. Gray, sem var svartur, lést í haldi lögreglunnar.

Drengurinn sem lögreglan skaut í gær er sagður á batavegi. Lögreglan segir að drengurinn hafi verið með leikfangabyssu, eða eftirlíkingu af byssu, sem líktist mjög alvöru vopni. „Ég vildi að ég væri ekki hér að lýsa fyrir ykkur því sem virðast vera mjög óvenjulegar aðstæður, þar sem 13 ára piltur ákvað að fara frá heimili sínu með eftirlíkingu af byssu í hendinni,“ sagði lögreglustjórinn Kevin Davis við fréttamenn. Hann sagðist gera sér grein fyrir hvað dagurinn 27. apríl, útfarardagur Grays, skipti borgina og alla íbúa hennar miklu máli. 

Davis segir að tveir lögreglumenn hafi verið að aka niður götu er þeir sáu ungan mann með byssu að því er virtist. „Þeir létu unga manninn vita af sér og hverjir þeir væru og ungi maðurinn hljóp í burtu með byssuna í hendinni.“ Davis segir að lögreglumennirnir hafi veitt honum eftirför um stund og að ungi maðurinn hafi aldrei sleppt byssunni úr hendinni. „Og annar lögreglumaðurinn skaut á unga manninn og særði hann, ekki lífshættulega.“

Lögreglumennirnir voru ekki á merktum lögreglubíl. Þeir voru heldur ekki klæddir í lögreglubúninga. Davis segir ekki enn ljóst hversu mörgum skotum var skotið. Líklega tveimur.

„Hann gat hvenær sem er sleppt byssunni, hann gat hvenær sem er stoppað, rétt upp hendurnar og farið eftir fyrirmælum lögreglunnar,“ segir Davis. Hann segir ekki vitað hvort að ungi maður ógnaði öryggi lögreglumannanna eða gekk í átt að þeim með byssuna.

Rannsókn á atvikinu er þegar hafin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert