Segir Cruz „Lúsífer holdi klæddan“

Carly Fiorina og Ted Cruz.
Carly Fiorina og Ted Cruz. AFP

Fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sparaði ekki stóru orðin þegar hann var spurður út í álit sitt á Ted Cruz sem sækist nú eftir því að verða forsetaframbjóðandi repúblikana í kosningunum í nóvember. John Boehner, sem hætti störfum á síðasta ári sagði Cruz einfaldlega „Lúsífer holdi klæddan“ þegar hann ræddi við nemendur og starfsmenn Stanford háskóla í gær.

„Ég á vini sem eru demókratar og sem eru repúblikanar. Ég kann vel við næstum því alla en ég hef aldrei unnið með eins ömurlegum tíkarsyni og honum,“ bætti Boehner við. Sagði hann jafnframt að hann myndi ekki kjósa Cruz í forsetakosningunum vilji svo ólíklega til að hann hljóti tilnefningu flokksins. Frekar myndi hann kjósa Donald Trump.

Viðhorf Boehner á Cruz ætti þó ekki að koma á óvart en Cruz var þekktur fyrir að reyna að grafa undan honum þegar hann var forseti fulltrúadeildarinnar og samkvæmt frétt The Atlantic gerði hann líf Boehner „ómögulegt“ og var það m.a. hann sem fékk Boehner til að hætta.

Mikið þarf að gerast til þess að Trump hljóti ekki útnefningu repúblikana en eins og staðan er núna er hann kominn með 987 af þeim 1.237 kjörmönnum sem þarf til þess að vera valinn. Cruz er aðeins með 562 en 583 kjörmenn eru enn í pottinum. Cruz hefur nú tilkynnt viðskiptakonuna Carly Fiorina sem meðframbjóðanda sinn sem er af mörgum talin undarleg ákvörðun í ljósi þess að Fiorina stendur sjálf höllum fæti meðal flokksmanna. 

Fiorina bauð sig fram í forkosningunum en dró framboðið til baka í febrúar. Þá er hún fyrrverandi framkvæmdastjóri Hewlett-Packard. Þar rak hún 30 þúsund manns og var síðan sjálf rek­in af stjórn fyr­ir­tæk­is­ins þrátt fyr­ir að hafa að eig­in sögn „bjargað“ fyr­ir­tæk­inu. Hún á einnig að baki mis­heppnaða at­rennu að öld­ung­ar­deild­ar­sæti Kali­forn­íu á Banda­ríkjaþingi.

Tilkynning Cruz kom einnig á óvart í ljósi þess að Cruz er langt frá því að hljóta útnefninguna í forkosningunum og ef hann hlýtur hana á sjálfum flokksfundinum í sumar fær hann ekki sjálfur að velja sér meðframbjóðanda.

John Boehner hætti á síðasta ári.
John Boehner hætti á síðasta ári. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert