Skar systur sína á háls

Mörg hundruð konur eru myrtar í svoköllluðum
Mörg hundruð konur eru myrtar í svoköllluðum "heiðursmorðum" í Pakistan á ári hverju. AFP

Lögregla í Pakistan hefur handtekið mann í Karachi fyrir heiðursmorð en hann á að hafa skorið systur sína á háls og látið henni blæða út í gær.

Maðurinn heitir Hayat Khan og er um tvítugt. Hann notaði eldhúshníf til þess að skera sextán ára systur sína á háls eftir að hann kom að henni þar sem hún var að tala við karlmann í síma. Hann kastaði henni úr húsinu en henni blæddi út á tröppunum fyrir utan heimili þeirra.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Gulzar Ahmed staðfesti atburðarrásina samtali við fjölmiðla og bætti við að fjölmörg stungusár hafi fundist á hálsi, bringu og baki stúlkunnar.

Á myndskeiði sem tekið var upp með farsíma má sjá nokkra menn og drengi standa í kringum stúlkuna sem liggur á maganum. Höfuð hennar sést hanga til hliðina og þá virðast fingurnir á hægri hönd hennar beyglaðir. Ungur drengur sést berjast við tárin á vettvangi og má heyra einn mann stinga upp á því að flytja stúlkuna á sjúkrahús i bíl. Þá segir annar „Þau eru alveg að koma, þau eru á leiðinni bróðir.“

Myndbandið sýnir næst Hayat, sem er klæddur fjólublárri skyrtu og bláum gallabuxum og starir beint í myndavélina.

Að sögn sjónarvotta var stúlkan flutt á sjúkrahús en hún lést á leiðinni.

Það sem er sérstakt við þetta mál er að lögreglan tók ákvörðun um að kæra Hayet í stað þess að treysta á að ættingjarnir myndu gera það. Í Pakistan eru lög sem heimila fjölskyldum fórnarlamba morða að fyrirgefa morðingjanum.

„Við höfum tilkynnt málið fyrir hönd yfirvalda því við viljum ekki veita fjölskyldunni tækifæri til þess að útkljá málið utan dómskerfisins,“ sagði lögreglumaðurinn Azfar Mahesar í samtali við AFP. Sú ákvörðun var tekin eftir að Inayat Khan, faðir Hayat og stúlkunnar sem var myrt sagði að hann fyrirgæfi syni sínum.

Mörg hundruð konur í Pakistan eru myrtar á hverju ári af ættingjum sínum til þess að verja „heiður“ fjölskyldunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert