Stálu 180 býflugnabúum

Býflugum hefur fækkað mjög í Norður-Ameríku vegna sjúkdóma og skordýraeiturs.
Býflugum hefur fækkað mjög í Norður-Ameríku vegna sjúkdóma og skordýraeiturs. AFP/KARL-JOSEF HILDENBRAND

Óprúttnir aðilar hafa framið heldur óvenjulegt rán en þeir námu á brott nokkuð sem er að verða fágætt í Norður-Ameríku: býflugum. Býflugnabóndinn Jean-marc Labonte í Quebec tapaði fleiri en 180 býflugnabúum í hendur þjófanna í vikunni, en verðmæti þeirra nemur um það bil 160.000 Bandaríkjadollurum.

Í samtali við AFP sagðist Labonte gruna að þjófnaðurinn væri verk annars býflugnabónda sem hefði tapað mörgum býflugum liðinn vetur.

Ránið, sem átti sér stað á mánudag í borginni Victoriaville, er til rannsóknar hjá lögreglu.

Labonte er afar miður sín vegna þjófnaðarins, enda eru býflugurnar allt að því fágætar og hafa hækkað í verði vegna þess hve þeim hefur fækkað. Hann segir virði hvers bús um 500 dollarar, en þá er ekki meðtalið „vinnuframlag“ býflugnanna.

Fjölskyldufyrirtæki býflugnabóndans á um 4.000 býflugnabú og leigir þau út til þeirra sem rækta bláber og trönuber. Býflugurnar sjá um að frjóvga plönturnar fyrir bændur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert