Önnur árás á sjúkrahús

Loftárás var gerð á heilsugæslustöð í sýrlensku borginni Aleppo í morgun. Í fyrradag var gerð loftárás á sjúkrahús í borginni. Fimmtíu féllu í þeirri árás, m.a. læknar og sjúklingar.

Ekki er vitað hvort mannfall varð í loftárásinni í morgun en ljóst er að einhverjir særðust.

Sameinuðu þjóðirnar segja að ástandið í Aleppo sé orðið „hörmulegt“. Átök hafa harðnað síðustu daga. Árásirnar voru báðar gerðar í hverfi borgarinnar sem er undir yfirráðum uppreisnarhópa. Ekki er vitað hver bar ábyrgð á þeim.

Sjónarvottar segja að árásin á miðvikudag hafi verið gerð úr orrustuþotu. CNN hefur eftir samtökunum Læknum án landamæra, að fimmtíu hafi farist, þar af tveir læknar, tveir hjúkrunarfræðingar og einn öryggisvörður. Samtökin telja enn líklegt að tala látinna eigi eftir að hækka.

Læknar án landamæra og Rauði krossinn ráku spítalann í sameiningu.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur fordæmt árásina og kennir sýrlensku ríkisstjórninni um. Hann segir að svo virðist sem árásin hafi verið gerð vísvitandi, á hús sem vitað var að hýsti sjúkrahús.
Barni bjargað út úr húsi sem varð fyrir loftárás í …
Barni bjargað út úr húsi sem varð fyrir loftárás í Aleppo í Sýrlandi í dag. AFP
Lík flutt út úr sjúkrahúsi sem sprengt var í Aleppo …
Lík flutt út úr sjúkrahúsi sem sprengt var í Aleppo á miðvikudag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert