Saknar stundum einangrunarklefans

Albert Woodfox
Albert Woodfox AFP

Albert Woodfox saknar stundum litla, þrönga einangrunarklefans í fangelsinu þar sem hann dvaldi í rúmlega fjörtíu ár. Honum finnst óþægilegt að vera meðal fólks en fær færri kvíðaköst nú þegar hann er laus úr klefanum. Woodfox ræddi við blaðamann Guardian um lífið eftir fangelsið.

Hann var látinn laus úr öryggisfangelsi í Louisiana í Bandaríkjunum í lok febrúar á þessu ári. Af þeim 43 árum sem Woodfox dvaldi þar var hann í einangrun í 40 ár. Hann var dæmdur í fangelsi árið 1971 fyrir vonað rán og hóf í kjölfarið afplánun. Ári síðar var hann síðan dæmdur fyrir morð á fangaverði en hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu.

Í klefanum gat Woodfox ekki virt fyrir sér himininn og ef hann vildi fá sér göngutúr gat hann aðeins rölt á milli veggja. Fyrir nokkrum dögum var hann á strönd í Galveston í Texas ásamt vini sínum. Hann stóð, horfði á fólkið á ströndinni og sjóinn sem náði svo langt sem augað eygði. „Þetta var svo skrýtið, að ganga á ströndinni og allt þetta fólk og börn hlaupandi um,“ sagði hann.

Blaðamaðurinn spyr hann hvort hann sakni stundum lífsins í klefanum. „Ó, já! Já,“ segir hann ákaft. „Í klefanum er rútína, þú veist nokkurn veginn hvað mun gerast, hvenær það mun gerast en samfélagið er erfiðara, það er lauslegra. Svo, það kemur fyrir að ég óska þess að ég sé aftur kominn í öryggi klefans,“ segir Woodfox.

Hann viðurkennir að honum hafi þótt erfiðara að aðlagast lífinu utan veggjanna en hann hafði gert ráð fyrir. „Allt er nýtt, smátt sem stórt,“ segir hann og bætir við að skrýtnasta tilfinning sé að vera í mannfjölda, meðal fólks. „Ég er ekki vanur því að fólk sé á hreyfingu í kringum mig og það stressar mig,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Engar bætur duga fyrir ranglætið

Frétt mbl.is: Woodfox laus úr afplánun

Frétt mbl.is: „Þeir geta aldrei brotið mig niður aftur“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert