„Þetta var eins og að fara yfir landamærin“

Donald Trump flytur ræðu sína.
Donald Trump flytur ræðu sína. AFP

Hundruð mótmælenda lentu í átökum við lögreglu í dag fyrir utan hótel í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum þar sem Donald Trump flutti ræðu. Mótmælendur báru skilti til höfuðs Trump, sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins vegna forsetakosninganna næsta haust, og aðrir veifuðu mexíkóska fánanum.

Trump lagði ekki í að fara um aðalinngang hótelsins þegar hann mætti á staðinn og fór þess í stað inn um hliðarinngang umkringdur leyniþjónustumönnum. Þurfti hann til þess meðal annars að klifra yfir vegg. „Þetta var ekki léttasta innkoman sem ég hef átt,“ sagði Trump þegar hann gekk inn á sviðið klukkutíma síðar en til stóð.

„Þetta var eins og að fara yfir landamærin,“ bætti hann við. Kalifornía skiptir miklu máli fyrir möguleika Trumps á að verða útnefndur forsetaframbjóðandi Repúblikana en hvergi búa fleiri Bandaríkjamenn af latneskum uppruna. Hörð stefna Trumps í innflytjendamálum og loforð um að reisa vegg á landamærunum að Mexíkó eru ekki líkleg til þess að afla honum fylgi meðal þeirra.

Donald Trump mótmælt.
Donald Trump mótmælt. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert