10 eftirlýstustu glæpamenn Evrópu handteknir

Á vefsíðunni er að finna upplýsingar um þekkta glæpamenn sem …
Á vefsíðunni er að finna upplýsingar um þekkta glæpamenn sem hafa hlotið dóm, eða sem eru grunaðir um alvarlega glæpi eða hryðjuverk í Evrópu.

Þremur mánuðum eftir að vefsíðan Europe’s Most Wanted Fugitives eða [e. Eftirlýstustu glæpamenn Evrópu], var sett í loftið með stuðningi Europol, er þegar búið að handsama tíu einstaklinga á listanum. Í a.m.k. sex tilfellum átti vefsíðan beinan þátt í handtökunni.

Það  var í upphafi árs sem European Network of Fugitive Active Search Teams (ENFAST),  samtök löggæslusveita innan Evrópusambandsins sem leita uppi einstaklinga sem eru á flótta undan réttvísinni, komu vefsíðunni www.eumostwanted.eu  í loftið. Þar getur almenningur aðstoðað lögreglu við að hafa uppi á þeim einstaklingum sem eru efst á lista löggæslustofnanna í ESB ríkjum yfir einstaklinga á flótta undan réttvísinni.

ENFAST eru samtök lögreglumanna í ESB og nágrannaríkjum sem sérhæfa sig í að hafa uppi á og handsama flóttamenn. Handtökum á vegum ENFAST hefur fjölgað verulega á undanförnum árum, en 42 voru handteknir árið 2011 á móti 239 í fyrra.

Upplýsingar um meinta glæpamenn og hryðjuverkamenn

Á vefsíðunni er að finna upplýsingar um  þekkta glæpamenn sem hafa hlotið dóm, eða sem eru grunaðir um alvarlega glæpi eða hryðjuverk í Evrópu.

Íbúar ESB og annarra ríkja geta veit gagnlegar upplýsingar í gegnum vefsíðuna og jafnvel sleppt því að gefa upp nafn sitt ef þeir svo kjósa. ENFAST hefur notið stuðnings Europol við verkefnið, m.a. við hönnun á öruggum gagnagrunni fyrir vefsíðuna.

Sex þeirra tíu sem þegar eru komnir bak við lás og slá, voru handsamaðir í kjölfar upplýsinga frá almenningi eða vegna aukinnar fjölmiðlaathygli.  

„Europe’s Most Wanted Fugitives listinn veitir ENFAST nýtt og mikilvægt tæki til að komast að því hvar glæpamenn eru niðurkomnir,“ segir í fréttatilkynningu frá Europol. „Vefsíðan gerir íbúa ESB að þátttakendum í leitinni að glæpamönnum á flótta undan réttvísinni og dregur þannig úr líkum á að þeim takist að fara huldu höfði.  Árangur af „Europe’s Most Wanted Fugitives“ vefsíðunni á þessum fyrstu þremur mánuðum fer fram úr okkar björtustu vonum.“

Sex af þeim tíu einstaklingum sem þegar hafa verið handteknir, voru gripnir í öðru ríki en þar sem þeirra var upprunalega leitað og segir Rob Wainwright, forstjóri Europol, stofnunina vera þakkláta fyrir þann mikla stuðning sem almenningur hefur sýnt verkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert