Dauðsföll þegar hús hrundi

Indverska lögreglan.
Indverska lögreglan. Wikipedia

Þriggja hæða hús hrundi í borginni Mumbai á Indlandi í dag með þeim afleiðingum að þrír að minnsta kosti létu lífið og fimm slösuðust. Húsið sem hrundi var í fjámálahverfi borgarinnar en óttast er að 5-6 aðrir séu enn fastir í rústunum. Tölur yfir látna eru þó eitthvað á reiki en haft er eftir lögreglumanni í frétt AFP að einn hafi að minnsta kosti látist.

Fram kemur í fréttinni að húsið hafi hýst bar og verksmiðju. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað olli því að húsið hrundi. Ennfremur segir í fréttinni að hús hafi ítrekað hrunið í Mumbai á undanförnum árum. Ástæðurnar séu gjarnan að kastað hefur verið til verka við byggingu þeirra, lítil gæði byggingarefna og aldur húsanna. Slík hús eru engu að síður notuð enda húsnæðisskortur víða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert