Drengir stálu leikföngum úr verslun

Þýska lögreglan
Þýska lögreglan Wikipedia

Tveir átta ára drengir tóku upp á því ræna leikföngum úr verslun í Bæjaralandi í Þýskalandi í vikunni í tvígang áður en upp komst um þá. Drengirnir byrjuðu ránið á þriðjudaginn þegar þeir höfuð á brott leikföng að andvirði 180 evrur eða sem nemur rúmlega 25 þúsund krónur.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að aðferðin hafi verið einföld. Þeir hafi smyglað leikföngunum inn í lyftu þaðan sem þeir fóru á salernið verslunarinnar. Þar tóku þeir leikföngin úr umbúðunum og fóru síðan og náðu í fleiri leikföng. Ránsfengurinn var að lokum fluttur brott.

Daginn eftir mættu þeir á nýjan leik í verslunina og höfðu tekið ófrjálsri hendi leikföng að verðmæti 40 evrur (um 5.600 krónur) þegar öryggisverðir höfðu hendur í hári þeirra. Þegar lögreglan reyndi að yfirheyra drengina þóttust þeir ekki tala eitt aukatekið orð í þýsku.

Það var ekki fyrr en foreldrar þeirra mættu á staðinn að það losnaði um málbeinið. Lögreglan fór að heimili drengjanna og uppi á háalofti fannst ránsfengurinn þeirra falinn. Þeir viðurkenndu loks verknaðinn eftir að hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að afvegaleiða lögregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert