Giftur tveimur konum samtímis

Nokkrum mánuðum eftir brúðukaupið var eiginkonu nokkurri farið að gruna að eiginmaðurinn væri ekki allur þar sem hann væri séður. Hún réði því einkaspæjara til að fylgjast með honum. Grunur hennar reyndist á rökum reistur: Maðurinn var giftur annarri konu og lifði tvöföldu lífi.

Hann hefur nú verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Essex í Bretlandi fyrir fjölkvæni, segir í frétt Telegraph um málið.

Vínsalinn David Jones giftist Wendy Lee í september í fyrra. En þá var hann þegar giftur annarri konu. Einkaspæjarinn sem Lee réð til að komast að hinu sanna um eiginmanninn var ekki lengi að grafast fyrir um manninn og komst að því að Jones var giftur annarri konu og hafði verið það í heil þrettán ár.

Lee lét lögregluna vita og hún hóf að rannsaka mál vínsalans upp á eigin spýtur. Hann var svo fljótlega handtekinn.

Jones viðurkenndi við yfirheyrslur hjá lögreglunni að hann væri giftur og hefði átt að skilja við fyrri konuna áður en hann giftist þeirri síðari. Jones segir að fyrra hjónaband hans hafi farið út um þúfur en hann hafi ekki verið kominn svo langt að skilja við konuna sem hann giftist árið 2002 er hann giftist seinni konu sinni árið 2015.

Saksóknarinn segist ekki vita hvernig honum hafi tekist að vera í sambandi við báðar konurnar samtímis.

Fjölkvæni er bannað með lögum í Bretlandi. Hægt er að dæma fólk í allt að sjö ára fangelsi fyrir slíkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert