33 látnir úr sætabrauðseitrun

Bal Mithai, teg­und af pakistönsku sæta­brauði.
Bal Mithai, teg­und af pakistönsku sæta­brauði. Ljósmynd/ Wikipedia

Fimm börn og 28 fullorðnir eru nú látnir í Pakistan eftir að hafa neytt eitraðs sætabrauðs.

Sætabrauðið innihélt skordýraeitur sem notað er í landbúnaði og hafa tveir eigendur bakarís og starfsmaður þeirra verið handteknir vegna málsins, sem þó er talið hafa verið óviljaverk.

Frétt mbl.is: Borðuðu eitrað sætabrauð og létust

Eitrunin átti sér stað í Karor Lal Esan í Punjab héraði þann 17. apríl þegar Umar Hayat keypti sætabrauðið og dreifði því til fjölskyldu og vina til að fagna fæðingu barnabarns hans.

Gleðin var hinsvegar skammlíf þar sem tíu manns létust strax sama dag. Nú eru alls 33 látnir og 13 eru enn á spítala.

Eigendur og starfsmaður bakarísins munu koma fyrir rétt á morgun. Í síðustu viku sagðist lögreglan telja að starfsmaðurinn hafi óvart bætt skordýraeitri í sætabrauðsdeigið. Í nágrenni bakarísins sé skordýraeitursverslun sem verið er að gera upp og eigandi hennar hafi fengið að geyma vörur sínar í bakaríinu.

Meðal hinna látnu eru faðir nýfædda drengsins, sex náfrændur og ein náfrænka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert