Mótmælendur yfirgefa íraska þinghúsið

Mótmælendur safnast saman fyrir utan þinghúsið í Bagdad.
Mótmælendur safnast saman fyrir utan þinghúsið í Bagdad. HAIDAR MOHAMMED ALI

Aðgerðarsinnar úr röðum síja múslíma, sem ruddust inn í Græna svæðið í Bagdad þúsundum saman á laugardag og tóku yfir íraska þinghúsið, eru nú að yfirgefa hverfið. Á Græna svæðinu eru helstu stjórn­ar­bygg­ing­ar lands­ins og er svæðis­ins er vand­lega gætt af vopnuðum vörðum.

Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, hafði áður að sögn fréttavefjar BBC, fyrirskipað handtöku þeirra sem tóku yfir þinghúsið. Skipuleggendur mótmælanna notuðu hins vegar hátalara til að boða að setuverkfallinu væri lokið.

Mótmælendurnir eru flestir stuðningsmenn síja klerksins Moqtada Sadr og eru ósáttir við að þingmönnum hafi ekki enn tekist að samþykkja nýja ráðherra.

Stjórn­mála­ástandið í Írak hef­ur síðustu vik­ur ein­kennst af mik­illi ólgu. Af­sakn­ar for­seta þings­ins hef­ur verið kraf­ist en hann er sakaður um að standa í vegi fyr­ir því að for­sæt­is­ráðherra lands­ins geti skipt út nokkr­um ráðherr­um. Þá saka mótmælendur stjórnina um að beina allri orku sinni í baráttuna gegn Ríki íslams í stað þess að sinna nauðsynlegum umbótum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert