Síðasti kvöldverðurinn með fréttariturum

Barack Obama Bandaríkjaforseti flytur ræðu sína.
Barack Obama Bandaríkjaforseti flytur ræðu sína. AFP

Meðal þess sem Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, gerði grín að á síðasta kvöldverði sínum með fréttariturum í gærkvöldi var hversu mikið hann hefði elst í embættinu og að vinsældir hans hefðu aukist síðasta árið. „Síðast þegar ég var svona hátt uppi var ég að reyna að velja mér aðalfag,“ sagði forsetinn og vísaði þar til þess að hann reykti hass í háskóla.

Kvöldverðurinn er árlegur viðburður þar sem Bandaríkjaforseti gerir góðlátlegt grín að stjórnmálunum og fjölmiðlum. Nokkrir brandaranna voru á kostnað Donalds Trump sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins vegna forsetakosninganna næsta haust. Trump var ekki viðstaddur en hann hefur oft mætt áður. Hafði hann lýst því yfir fyrirfram og gefið þá ástæðu að fjölmiðlar ættu eftir að draga upp ranga mynd af viðbrögðum hans.

Hins vegar var Bernie Sanders á staðnum en hann sækist eftir útnefningu Demókrataflokksins. „Bernie, þú ert á við milljón dali,“ sagði Obama og bætti við. „Eða svo þú skiljir það, þú ert á við 37 þúsund framlög af 27 dölum.“ Vísaði hann þar til margra smárra kosningaframlaga sem Sanders hefur fengið til kosningabaráttu sinnar. 

Forsetinn lauk ræðu sinni með því að sleppa hljóðnemanum líkt og tónlistarmenn og aðrir skemmtikraftar gera gjarnan þegar sýningu þeirra er lokið. Ýmsir þekkir einstaklingar úr skemmtanalífinu voru viðstaddir. Þar á meðal kvikmyndaleikarinn Will Smith og eiginkona hans Jada Pinkett Smith, leikkonan Helen Mirren og söngkonan Aretha Franklin.

Horfa má á alla ræðu Obama hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert