Gengu fram á lík fjallagarps

Fjallgöngumaðurinn Alex Lowe sem fórst árið 1999.
Fjallgöngumaðurinn Alex Lowe sem fórst árið 1999. mynd/Wikipedia

Lík bandaríska fjallgöngumannsins Alex Lowe, sem fórst í snjóflóði í Himalajafjöllum fyrir sextán árum, er fundið. Tveir fjallagarpar sem lögðu á Shishapangma í Tíbet gengu fram á lík hans og félaga hans. Höfðu þau komið undan hopandi jökli.

Lowe var að reyna að komast á tind Shishapangma, sem er rúmlega átta kílómetra hár, árið 1999 þegar hann og myndatökumaðurinn David Bridges lentu í snjóflóði. Þriðji maðurinn, Conrad Anker, lifði hamfarirnar af. Í tilkynningu frá fjölskyldu Lowe kemur fram að fjallgöngumennirnir sem fundu líkin hafi lýst fatnaði og bakpokum sem voru á þeim. Anker hafi ályktað út frá því að þau séu af Lowe og Bridges.

Þremenningarnir ætluðu að komast á tind fjallsins og skíða niður. Þeir voru að kortleggja leiðir í um 5.800 metra hæð þegar stór snjóhengja fór af stað um 1.800 metrum fyrir ofan þá, að því er segir í frétt The Guardian. Shishapangma er 14. hæsti tindur jarðar.

Lowe var talinn einn mesti fjallagarpur heims á sínum tíma og var aðeins fertugur þegar hann fórst. Gárungarnir nefndu hann gjarnan „Lungun með fæturna“ vegna þess hvað hann hafði mikið úthald. Hann hafði meðal annars klifið Everest-fjall tvisvar og er sagður hafa bjargað nokkrum göngumönnum í Alaska árið 1995.

Bridges var 29 ára gamall og var reyndur fjallgöngumaður og kvikmyndagerðarmaður.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert