Leyniskjöl benda til samstarfs stjórnarhers Sýrlands og Ríkis íslams

Samkvæmt skjölum sem Sky fréttastofan hefur undir höndum þá ríkti …
Samkvæmt skjölum sem Sky fréttastofan hefur undir höndum þá ríkti samkomulag milli Ríkis íslams og sýrlenska stjórnarhersins um að vígasveitirnar yfirgæfu þessa fornu borg. LOUAI BESHARA

Vígasveitir Ríkis íslams  og sýrlenski stjórnarherinn virðast hafa átt í samstarfi árum saman og brottför Ríkis íslams frá borginni Palmyra var liður í slíku samstarfi að því er fram kemur í skjölum sem fréttastofan Sky hefur undir höndum.

Upplýsingar Sky byggja á leynigögnum sem lekið var frá Ríki íslams og sem benda til að einn liður í samstarfi stjórnarhersins og vígasveitanna hafi verið að stjórnarherinn tæki Palmyra yfir.

Gögnin sýna einnig að vígasveitir Ríkis íslams hafa verið að þjálfa erlenda vígamenn til að ráðast gegn skotmörkum  á Vesturlöndum í mun lengri tíma en leyniþjónustur hafa talið hingað til.

Uppljóstranirnar ítreka ótta Bandaríkjamanna við að net af hryðjuverkaselum sé að finna í Evrópu og  að verið sé að undirbúa frekari árásir á borð við þær sem gerðar voru í París á síðasta ári og í Brussel nú í mars.

Liðhlaupar úr röðum liðsmanna Ríkis íslams hafa þá greint fréttastofu Sky News frá því að afhending Palmyra hafi verið liður í samstarfi sem nái nokkur ár aftur í tímann.

Hörfi áður en ráðist er inn

Ný gögn sem Sky segist hafa undir höndum, auk 22.000 skjala em afhent voru í síðasta mánuði, virðast staðfesta þetta. Sýna gögnin fram á samning milli stjórnarhersins og Ríkis íslams um að síðarnefndu sveitirnar hörfi frá Palmyra, að samkomulag hafi verið milli Ríkis íslams og stjórnarhersins um að skipta á olíu fyrir gróðuráburð og að Ríki íslams yfirgefi sum svæði sem samtökin hafi á valdi sínu áður en sýrlenski herinn ræðst þar inn.

Sl. 18 mánuði hefur Sky fréttastofan verið í sambandi við Frelsisher Sýrlands, hóp sem upprunalega kemur frá höfuðvígi  Ríkis íslams í Raqqa, en heldur nú til í Tyrklandi og smyglar liðhlaupum frá samtökunum yfir landamærin til Tyrklands.

Sumir liðhlaupanna viðurkenna opinskátt að þeir aðhyllist enn kenningar Ríkis íslams og að þeir hafi aðeins gerst liðhlaupar vegna deilna við stjórnendur samtakanna.

Að sögn Sky er illmögulegt að sannreyna réttmæti þessara nýjustu skjala sem fréttastofan hefur undir hendi, en að öll fyrri gögn sem þeim hafi borist í gegnum samtökin hafi reynst rétt.

Skipta á olíu og gróðuráburði

Nýju gögnin eru ljósrit af handskrifuðum fyrirskipunum sem send voru úr höfuðstöðvum Ríkis íslams. Annað skjalið fer fram á að bílstjórar fái að ferðast í friði í gegnum eftirlitsstöðvar Ríkis íslams, „þar til hann kemur að landamærum stjórnarhersins til að skipta olíu fyrir gróðuráburð“. Að sögn liðhlaupanna hefur þetta samkomulag verið í gildi árum saman.

Annað bréf inniheldur skipanir frá herforingja um að flytja allan búnað og vopn að fyrirfram samþykktum brottflutningsstöðum. „Okkur hafa borist upplýsingar um að al Qasr og nærliggjandi sveitir verði fyrir árásum 24. nóvember 2013,“  segir í bréfinu.

Eitt áhugaverðasta skjalið var ritað skömmu áður en stjórnarherinn náði Palmyra aftur úr höndum Ríkis íslams.

„Flytjið öll þungavopn og flugskeytavopn sem eru í Palmyra og nágrenni til Raqqa,“ segir í skjalinu.

Stuart Ramsey, fréttamaður Sky, spurði einn liðhlaupanna hvort samstarf væri milli stjórnarhersins og Ríkis íslams og svarið var einfalt: „Auðvitað,“ svaraði liðhlaupinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert