Dönsk sýning kærð fyrir að hvetja til hryðjuverka

Leiðsögumaður um sýninguna mun segja frá atburðunum á Bataclan skemmtistaðnum …
Leiðsögumaður um sýninguna mun segja frá atburðunum á Bataclan skemmtistaðnum frá sjónarhóli hryðjuverkamannsins. THOMAS OLIVA

Listsýning  sem á að sýna hryðjuverkamennina sem tóku þátt í árásunum í Brussel og  París sem píslarvotta, hefur verið kærð til dönsku lögreglunnar.

Sýningin, sem til stendur að setja upp í Kaupmannahöfn, er sögð hvetja til hryðjuverka.  Það er hópur danskra listamanna sem stendur að sýningunni, sem m.a. sækir innblástur sinn til píslarvottasafnsins í Tehran, höfuðborg Írans.

Listamennirnir ætla að sýna bræðurna  Ibrahim og Khalid El-Bakraoui, sem sprengdu sjálfsvígssprengjur í árásunum í Brussel og Foued Mohamed-Aggad, sem sprengdi sig upp á Bataclan skemmtistaðnum í París í nóvember í fyrra.

Innsetningin á að vera stíl listasýningar með táknmyndum  af „fórnarvottunum“, ásamt eftirmyndum af eigum þeirra og veggplöttum sem útskýra hverjir þeir eru. Auk sjálfsvígsmannanna þá verður einnig að finna á sýningunni myndir af sögufrægum einstaklingum sem létu lífið fyrir málstað sem þeir börðust fyrir, t.d. Jóhanna af Örk og gríski heimspekingurinn Sókrates að því er AFP-fréttastofan hefur eftir Ida Grarup Nielsen, einum listamanna hópsins Hitt auga tígursins.

Frá sjónarhóli hryðjuverkamannsins

„Leiðsögumaður mun segja frá Foued Mohamed-Aggad og atburðunum í Bataclan og herbergið verður fyllt hljóðum og tónlist,“ sagði Nielsen.

Sagan yrði sögð líkt og frá hans sjónarhóli.

El-Bakraoui bræðurnir yrðu ekki meðal þeirra verka sem eiðsögnin um sýninguna tæki til, en myndir af þeim og eftirlíkingar af eigum þeirra yrðu til sýnis, m.a. svartur leðurhanski sem talið er að Ibrahim El-Bakraoui hafi klæðst til að fela kveikibúnaðinn.

Til stendur að opna sýninguna 26. maí gömlu sláturhúsi í kjötvinnsluhverfinu í Kaupmannahöfn. Húsakynnin tilheyra leikhópi sem er undir listrænni stjórn Christian Lollike, sem olli miklu umtali 2012 er hann setti á svið leikrit sem byggt var á stefnuyfirlýsingu norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik.

„Sýningin snýst raunverulega um að útskýra hugtakið píslarvottur í gegnum söguna og frá jafn mörgum ólíkum sjónarhornum og hægt er,“ sagði Nielsen.  „Allir eru hetja sinnar eigin sögu,“ bætti hún við.

Diego Gugliotta, einn stjórnmálamanna Venstre flokksins kærði sýninguna og skipuleggendur hennar til lögreglunnar fyrir að hvetja til hryðjuverka.

„Að sýna alþjóðlega hryðjuverkamenn sem hetjur kann að hvetja einhverja einstaklinga til að taka lokaskrefið og ganga til liðs við hryðjuverkasamtök,“ skrifaði Gugliotta í færslu á Facebook síðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert