Línurnar farnar að skýrast

Hver verður næsti íbúi Hvíta hússins?
Hver verður næsti íbúi Hvíta hússins? AFP

Nú fer að hitna í kolunum í forkosningunum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en á morgun verður kosið í Indiana ríki. Það styttist svo sannarlega í að úrslit forvalsins liggi fyrir en aðeins á eftir að kjósa í fjórtán ríkjum. Allt bendir til þess að frambjóðandi demókrata verði Hillary Clinton en að Donald Trump verði valinn af repúblikönum.

Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Stjórn­mála­fræðideild Há­skóla Íslands, segir kosningarnar á morgun vera á vissan hátt úrslitastund fyrir repúblikana en samkvæmt könnunum er Donald Trump með 69% fylgi í ríkinu. „Ef hann vinnur á morgun þýðir það ekki endilega að hann sé kominn með þetta heldur þá eiga hinir enga möguleika,“ segir Silja.

Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ.
Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ. Morgunblaðið/Eva Björk

Cruz og Kasich einfaldlega ekki nógu sterkir

Hún segir kosningabaráttuna meðal repúblikana síðustu misseri sýna að frambjóðendurnir Ted Cruz og John Kasich eru einfaldlega ekki nógu sterkir á móti Trump.

Silja Bára telur að þeir Cruz og Kasich muni eitthvað halda áfram kosningabaráttum sínum þrátt fyrir að vonin með að hljóta útnefninguna sem lítil sem engin. „Ég skil ekki alveg af hverju Kasich er ekki hættur, hann hefur aðeins unnið í sínu heimaríki. Ég veit ekki hvað hann er að gera því hann hefur sagst ekki vilja vera varaforsetaefnið vilji svo ólíklega til að Cruz hljóti tilnefninguna. En það getur vel verið að það sem haldi honum þarna inni er einmitt sú von,“ segir Silja Bára.

Eins og sagt hefur verið frá gerðu þeir Cruz og Kasich bandalag sín á milli um að reyna að stöðva sigurgöngu Trump. Silja Bára telur það þó augljóst að það hafi ekki dugað þar sem þeir eru einfaldlega ekki með jafn marga fylgjendur og Trump. „Það er ákveðið vanmat á stöðunni að þeir haldi að þetta bandalag þeirra dugi.“

Silja Bára segir frambjóðendurnaTed Cruz og John Kasich einfaldlega ekki …
Silja Bára segir frambjóðendurnaTed Cruz og John Kasich einfaldlega ekki nógu sterka á móti Trump.

Trump óvinsæll hjá mikilvægum hópum

Þá segir Silja Bára Bernie Sanders, helsta andstæðing Hillary Clinton, lengi ekki hafa átt séns á að ná meirihluta. „Hann er ekki með þann fjölda kjörmanna sem hann lagði upp með í upphafi til þess að vinna meirihluta atkvæða og kjörmanna á landsfundinum og hann mun ekkert ná því. Fyrir tveimur vikum fór kosningastjórinn hans að tala um að snúa ofurkjörmönnunum og fá það til að skipta um skoðun. Það er ekki í neinu samræmi við málflutnings Sanders hingað til og kom það illa við marga.“

Hún segir það þó ljóst að Clinton sé búin að fá nógu marga kjörmenn til þess að vera örugg um að hljóta útnefninguna. „Það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að hún vinni þetta ekki,“ segir Silja Bára en Clinton er komin með 2.165 kjörmenn af þeim 2.383 sem þarf.

Verði það Trump og Clinton sem mætast í sjálfum forsetakosningunum í nóvember sýna allar mælingar að Clinton myndi sigra. Bendir Silja Bára á að óvinsældir Trump séu gífurlegar meðal hópa sem skipta mestu máli í kosningunum, það er meðal fólks af rómönskum uppruna, blökkumanna og ungra kjósenda. „Meðal ungra er Clinton mjög veik gagnvart Sanders en mjög sterk gagnvart Trump. Það snýst allt í einu við þegar við erum komin í sjálfar forsetakosningarnar,“ segir Silja Bára.

Miklar líkur eru á því að Hillary Clinton verði næsti …
Miklar líkur eru á því að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna. Það mun þó ekki koma endanlega í ljós fyrren í nóvember. AFP

Clinton og Sanders myndu bæði sigra Trump

Kannanir sýna að Sanders myndi rústa Trump með 15% fylgismun sem er að sögn Silju Báru fordæmalaus munur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. „En miðað við kannanir núna myndi Clinton vera að vinna Trump með rúmlega sjö stiga mun sem er mjög góð útkoma,“ segir Silja Bára.

Hún segir að stuðningsmenn Sanders hafa verið að halda á lofti að hann væri sterkari gegn Trump en á móti kemur að Clinton sé búin að vera í sviðsljósinu á landsvísu í 25 ár. „Reynt hefur verið að finna eitthvað á hana og þar er varla hægt. Það er ekkert um hana sem kemur fólki á óvart. Sanders hefur aldrei verið í sviðsljósinu á landsvísu fyrr en núna. En baráttan milli hans og Clinton hefur verið mjög siðprúð í samanburði við repúblikana. Þau hafa ekkert verið mikið í skítkastinu.“

Að mati Silju Báru er helsta vandamál Sanders sósíalistastimpillinn. „Þó að viðhorfið til sósíalisma sé aðeins að breytast, sérstaklega meðal ungs fólks eru margir sem vilja ekki þennan stimpil. Þó svo að Sanders mælist miklu sterkari gegn Trump núna er ekki hægt að segja að hann myndi sigra.“

Árangur Trump kemur á óvart

Silja Bára segir sigurgöngu Trump síðustu misseri hafa komið sér á óvart. „Ef maður skoðaði framboðið hans í upphafi og þær mælingar sem voru þá að koma fram þá var þetta alls ekki líklegt. Í kringum áramótin láku gögn af fundi sem hann hélt fyrir ári og lýsti því hvernig hann ætlaði að taka þessa baráttu. Það hefur staðið.“

Hún bendir á að fjölmiðlar hafi á vissan hátt starfað fyrir Trump útaf þeirri svakalegu umfjöllun sem hann og framboð hans hefur fengið og hefur Trump þurft að eyða frekar litlu fjármagni í auglýsingar. „En það sem kemur manni á óvart er að þarna er maður sem hefur enga reynslu af stjórnmálum og fólk er tilbúið að snúast með manni sem hefur ekkert mælanlegt eða metanlegt að sýna,“ segir Silja Bára og segir þetta dæmi um þá andkerfisstemningu sem er í gangi bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Donald Trump hefur verið sigursæll í forkosningum repúblikana.
Donald Trump hefur verið sigursæll í forkosningum repúblikana. AFP

Tengja við einangrunarhyggju, útlendingahatur og ótta um stöðu sína

Hún segir stóra vandamálið þó ekki hversu langt Trump kemst heldur hvað gagnrýnin hugsun virðist vera ábótavant meðal kjósenda og hversu langt maður getur komist á „einhverjum yfirborðsfræðum“ eins og Silja Bára kallar það. „Þessi maður er búinn að vera með einhverjar 14 seríur af The Apprentice og hann er bara alltaf í sjónvarpinu. En það er mjög merkilegt að það dugi.“

Silja Bára segir Trump tala til hóps sem tengir við ótta um stöðu sína í samfélaginu. „Ein könnun þar sem fólk var spurt út í lífskjör sín sýndi að þeir sem sögðust styðja Trump sögðust jafnframt hafa séð lífskjör sín versna síðustu áratugi. Hann talar til einhvers hóps fólks sem tengir við einangrunarhyggju, útlendingahatur og óttast um stöðu sína,“ segir Silja Bára og bætir við að fjölmiðlum hafi mistekist að láta Trump bera ábyrgð á orðum sínum. „Hann fær að komast svona langt með málflutning sinn án þess að einhver geri hann ábyrgan fyrir því.“

Sækja í reynslu Clinton

Þegar það kemur að Clinton vísa stuðningsmenn hennar í reynslu og þekkingu ráðherrans fyrrverandi. „Hún er bæði með reynslu úr framkvæmdavaldinu, sem ráðherra, löggjafavaldinu sem öldunaþingmaður og úr störfum í opinberum vettvangi sem forsetafrú. Það er það sem margir kjósendur sækja í, það að hún sé með þessa reynslu og þekkingu. Minnihlutahópar vilja frekar sjá hana og tengja hana líka við flokkinn sem þau treysta,“ segir Silja Bára.

Aðspurð hvað hún haldi að Sanders geri eftir forkosningarnar, segir hún hann sjálfan lítið hafa sagt til um hvað hann vilji. „Maður velti því fyrir sér hvernig hann ætlar að beita þessum stuðningi sem hann er búinn að afla og hvort hann muni nota hann fyrir flokkinn eða ekki. Hann hefur sagst ætla að styðja Clinton eða öllu heldur sagst ætla að leggja sitt að mörkum til að repúblikani verði ekki næsti forseti,“ segir Silja Bára. Henni þykir ólíklegt að Sanders muni sækja eftir ráðherrastól.

„Mér finnst mun líklegra að hann muni sækja eftir því að fá stuðning flokksins um hin ýmsu markmið sín eins og ókeypis háskólamenntun eða regluvæðingu bankanna. Hann á auðvitað tvö ár eftir í þinginu og gæti bara farið aftur þangað.“

Silja Bára segir það ólíklegt að Bernie Sanders muni sækjast …
Silja Bára segir það ólíklegt að Bernie Sanders muni sækjast eftir ráðherrastóli. - AFP

Græða á framboði Trump

Eins og fyrr segir er kosið í Indiana á morgun og þá á eftir að kjósa í þrettán ríkjum. Stærsta ríkið sem eftir á að kjósa í er Kalifornía en þar eru 548 kjörmenn í pottinum fyrir demókrata en 172 hjá repúblikönum. Þar hefur verið gífurleg fjölgun meðal ungs fólks og minnihlutahópa sem eru að skrá sig á kjörskrá. „Það er merki um eitthvað sem gæti breytt svolítið stöðunni í haust. Fólk er að mæta til að kjósa gegn Trump. Það má því segja að demókratar séu að græða á framboði hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert