Lýstu drápinu á Bin Laden „í beinni“

Osama bin Laden var skotinn til bana í Pakistan 2. …
Osama bin Laden var skotinn til bana í Pakistan 2. maí 2011. Ljósmynd/Wikipedia

CIA, leyniþjónusta Bandaríkjanna, hefur verið harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum eftir að hafa tíst „beinni útsendingu“ á drápinu á Osama Bin Laden eins og það væri að eiga sér stað í dag.

BBC segir frá.

Leyniþjónustan deildi upplýsingum um aðgerðirnar sem leiddu til þess að Bin Laden, eftirlýstasti maður heims, fannst og var drepinn fyrir fimm árum í dag í Pakistan.

Viðbrögðin hafa þó verið frekar neikvæð og sagði einn notandi Twitter lýsinguna „hlægilega og vandræðalega“. Aðrir deildu svokölluðum GIF myndum af fólki að ranghvolfa augunum.

Bin Laden var leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda og talinn hafa fyrirskipað árásirnar 11. september 2001 á Bandaríkin. Hann var skotinn til bana í húsi í Abbottabad í Pakistan 2. maí 2011 eftir að hafa náð að fela sig fyrir Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra í tæpan áratug.

Í tilefni fimm ára afmælis dauða Bin Laden ræddi framkvæmdastjóri CIA, John Brennan við fjölmiðla og sagði að Bandaríkin hefðu tortímt stórum hluta al-Qaeda.

Sagði hann Bin Laden þjóna miklum tilgangi fyrir samtökin, ekki síst á táknrænan hátt og var mikilvægt að „fjarlægja“ manninn sem á að hafa borið ábyrgð á árásunum 2001.

Hér að neðan má sjá nokkur tíst frá CIA í tilefni dagsins.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert