Sprengjum rignir enn í Aleppo

Hundruð manna hafa fallið í átökum í og við Aleppo …
Hundruð manna hafa fallið í átökum í og við Aleppo undanfarna viku. AFP

Loftárásir héldu áfram á sýrlensku borgina Aleppo í morgun þrátt fyrir tilraunir til þess að binda enda á átökin þar. Hundruð óbreyttra borgara hafa fallið í skærum í og við borgina undanfarna viku. Ekki er ljóst hvort að sýrlenskar eða rússneskar þotur hafi staðið fyrir árásunum í dag.

Fréttaritari AFP í Sýrlandi segir að árásirnar hafi átt sér stað snemma í morgun en engar fregnir hafa borist enn um mannfall. Sprengjum hafi rignt yfir nokkur hverfi, þar á meðal hið fjölmenna Bustan al-Qasr.

Skærurnar við Aleppo hafa ógnað friðarumleitunum Sameinuðu þjóðanna og brothætt vopnahléssamkomulag. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom til Genfar í gær til að ræða við ráðherra frá arabaríkjum og erindreka SÞ til að freista þess að binda enda á blóðbaðið.

Aleppo var undanskilin endurnýjun vopnahléssamkomulags á milli ríkisstjórnarinnar og uppreisnarmanna utan þeirra sem heyja jíhad sem tilkynnt var um á föstudag. Vopnahléið nær til vígstöðva í strandhéruðunum Latakia og Eystri-Ghouta nærri Damaskus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert