Telst enn ógn, fimm árum síðar

Frá vettvangi árásar Al-Kaída í Aden í Jemen um helgina.
Frá vettvangi árásar Al-Kaída í Aden í Jemen um helgina. AFP

Í dag eru fimm ár liðin frá því að Osama Bin Laden, stofnandi hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída lést í aðgerðum Bandaríkjahers og CIA í Pakistan. Fráfall Bin Laden hefur án efa haft áhrif á starfsemi Al-Kaída sem er þó enn ógn í augum Bandaríkjanna og fleiri þjóða. 

Drápinu á Bin Laden var fagnað um öll Bandaríkin og þótti söguleg stund. Þrátt fyrir það hafa hópar öfgasinnaðra íslamista aldrei verið fleiri í heiminum en einmitt núna. Hryðjuverkaárásir teygja anga sína um allan heim, frá París og Brussel til Bagdad og Kabúl. Þá eru hryðjuverk einnig mjög áberandi á ákveðnum svæðum Afríku eins og í Líbýu og Nígeríu.

Bin Laden var drepin í áhlaupi sérsveitar Bandaríkjahers og CIA á heimili í Abbottabad í Pakistan. Sérsveitamaður skaut Bin Laden í höfuðið og lést hann samstundis. Barack Obama forseti Bandaríkjanna tilkynnti um drápið á Bin Laden  í sjónvarpsávarpi og þá var það jafnframt staðfest af Al-Kaída fjórum dögum síðar.

Osama Bin Laden
Osama Bin Laden Ljósmynd/Wikipedia
Þessa mynd birtu bandarísk yfirvöld í maí 2011 en hún …
Þessa mynd birtu bandarísk yfirvöld í maí 2011 en hún sýnir helstu stjórnendur landsins fylgjast með aðgerðum sérsveitamannanna í Pakistan. Á myndinni má m.a. sjá Joe Biden, varaforseta, Barack Obama, forseta og Hillary Clinton, þáverandi utanríkisráðherra.
Obama tilkynnir bandarísku þjóðinni að Osama Bin Laden sé allur.
Obama tilkynnir bandarísku þjóðinni að Osama Bin Laden sé allur. Af Wikipedia

Að mati sérfræðinga er það nokkuð ljóst að Al-Kaída sé langt frá því að vera að leggja upp laupana þrátt fyrir fráfall leiðtogans fyrir fimm árum síðan. Með komu Ríkis íslams á sjónarsviðið árið 2014 hefur Al-Kaída þó orðið minna áberandi en ógnin er án efa enn til staðar.

Til að mynda voru það menn á vegum Al-Kaída sem frömdu hryðjuverkaárásirnar á skrifstofum tímaritsins Charlie Hebdo í París á síðasta ári þar sem tólf létu lífið. Þá hafa bandamenn Al-Kaída í Sómalíu, al-Shabab herjað á almenna borgara, ferðamenn og hermenn í nokkrum Afríkuríkjum síðustu misseri. Liðsmenn Al-Kaída einnig látið til sín taka í Sýrlandi og Jemen og notfært sér óreiðuna í löndunum og náð yfirráðum á stórum svæðum.

Slökkviliðs- og lögreglumenn fyrir framan höfuðstöðvar Charlie Hebdo í París …
Slökkviliðs- og lögreglumenn fyrir framan höfuðstöðvar Charlie Hebdo í París eftir árás liðsmanna Al-Kaída þar sem tólf létu lífið. AFP

Þegar að Bin Laden var myrtur 2. maí 2011 hafði Al-Kaída beðið skaða vegna stríðs Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum. Ayman al-Zawahiri tók við af Bin Laden sem leiðtogi samtakanna og er hann það enn í dag.

Fyrrnefnt Ríki íslams var áður hluti af Al-Kaída í Írak en aðskildi sig frá þeim og var íslamska „kalífadæmið“ stofnað árið 2014. Al-Kaída hefur síðan staðið í skugganum á Ríki íslams en eins og kunnugt er hafa þúsundir manna gengið til liðs við samtökin og drepið mörg hundruð manns í löndum eins og Tyrklandi, Frakklandi, Belgíu Túnis, Tyrklandi, Líbanon, Jemen og Sádi Arabíu. Þá lýstu samtökin jafnframt yfir ábyrgð á því að hafa grandað rússneskri farþegaþotu yfir Sinaí skaga í Egyptalandi á síðasta ári þar sem 224 létu lífið.

Ríki íslams grandaði rússneskri farþegaþotu yfir Sínaí skaga í október.
Ríki íslams grandaði rússneskri farþegaþotu yfir Sínaí skaga í október. AFP
Íbúar leggja teppi yfir látinn mann á Fílabeinsströndinni eftir árás …
Íbúar leggja teppi yfir látinn mann á Fílabeinsströndinni eftir árás Al Shabaab í mars. AFP

Þá hafa fjölmargir öfgahópar lýst yfir hollustu við Ríki íslams en samtökin hafa nýtt sér samfélagsmiðla til þess að breiða út áróðri sínum. Að sögn Jean-Pierre Filiu sem er sérfræðingur í íslam og öfgahópum, hefur Al-Kaída einnig nýtt sér samfélagsmiðlana en geta þakkað Ríki íslams fyrir að hafa skapað vettvanginn.

„Al-Kaída hefur allsstaðar tapað fyrir Daesh (annað nafn Ríkis íslams), nema í Sahel,“ segir Filiu en Sahel er eyðimerkursvæði í Norður-Afríku.

Bandaríski sérfræðingurinn William McCants, sagði jafnframt að Al-Kaída hefði misst einhverja undirstöðu vegna Ríkis íslams en væri nú aftur að styrkjast. „Al-Kaída er með sterka nærveru bæði í Sýrlandi og Jemen,“ sagði McCants og benti á að bandamenn Al-Kaída, Al-Nusra Front, væru einir af sterkustu öflunum sem berjast gegn stjórn Sýrlandsforseta en samtökin ráða ríkjum í stórum hlutum héraðsins Idlib.

Þá hafa samtök Al-Kaída í Jemen, AQAP, náð stórum landsvæðum í suður- og suðaustur landinu  og eru þar þúsundir liðsmanna miðað við aðeins nokkur hundruð liðsmenn Ríkis íslams.

Tólf manns létu lífið þegar að vopnaðir menn réðust inn á skrifstofu tímaritsins Charlie Hebdo í París í janúar 2012 . AQAP lýsti yfir ábyrgð á árásunum. Þá hefur „útibú“ Al-Kaída í Afríku, AQIM ráðist á hótel og veitingastaði í Mali, Burkina Faso og Fílabeinsströndinni og drepið tugir manna, þar á meðal marga erlenda ferðamenn.

Þær árásir eru taldar sýna aukin áhrif Al-Kaída í Afríku.

3.000 manns féllu í árásum Al-Qaeda á Bandaríkin 11. september …
3.000 manns féllu í árásum Al-Qaeda á Bandaríkin 11. september 2001. Af Wikipedia

Bandaríkjamenn líta enn á Al-Kaída sem ógn og mátti sjá það m.a. þegar að Bandaríkjaher gerði miklar drónaárásir á bækistöðvar Al-Kaída í Jemen. Í árásum Bandaríkjahers hafa margir stjórnendur samtakanna látið lífið, þá á meðal Nasir al-Wuhayshi sem var sagður vera helsti aðstoðarmaður Ayman al-Zawahiri. Í mars létu að minnsta kosti 71 liðsmaður AQAP lífið í loftárásum Bandaríkjahers á æfingabúðir í Jemen.

Í tilefni þess að fimm ár eru liðin frá drápinu á Bin Laden ræddi Barack Obama forseti Bandaríkjanna við blaðamann CNN, Peter Bergen, um aðgerðirnar og verður það sýnt á stöðinni í kvöld. Þar segir Obama m.a. að drápið á Bin Laden hafi sýnt þau skilaboð að Bandaríkin myndu alltaf hefna sín á þeim sem ráðast á þá, sama hversu langan tíma það tekur eða hversu langt þarf að fara. Obama sagði Bergen að þegar að sérsveitamennirnir komu að Bin Laden hefðu „vonandi, skildi hann þá að Bandaríkjamenn hefðu ekki gleymt þessum 3.000 einstaklingum sem hann drap.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert