Tvö mannshöfuð finnast í Mexíkóborg

Borgaryfirvöld í Mexíkóborg fullyrða að engir eiturlyfjahringir séu starfandi í …
Borgaryfirvöld í Mexíkóborg fullyrða að engir eiturlyfjahringir séu starfandi í þessari rúmlega 20 milljónir manna borg. HO

Tvö mannshöfuð fundust í Mexíkóborg um helgina að sögn yfirvalda í borginni.  Karlmannshöfuð fannst í ferðatösku á sunnudag í Tepito hverfinu þar sem mikið er um glæpi og þá fannst höfuð, ásamt tveimur framhandleggjum, í svörtum plastpoka á laugardag á götuhorni í Atlanta hverfinu.

Að sögn AFP-fréttastofunnar þá fullyrða borgaryfirvöld að engir eiturlyfjahringir séu starfandi í Mexíkóborg þar sem rúmlega 20 milljónir manna búa.

Meira er um ofbeldi glæpagengja utan höfuðborgarinnar, m.a. skotbardaga á götum úti og afhöfðun fórnarlamba.

Mexíkóborg er þó ekki með öllu ónæm fyrir slíkum glæpum og í maí í fyrra fundust líkamsleifar þriggja einstaklinga sem dreift hafði verið í lestarvagna í borginni. Þá fundust líkamsleifar 13 ungmenna í fjöldagröf utan við borgina í ágúst 2013, en ungmennunum hafði verið rænt af bar um miðjan dag í nágrenni miðborgarinnar þremur mánuðum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert