Fyrrverandi forseti til rannsóknar

Cristina Fernández de Kirchner, fyrrverandi forseti Argentínu, er sökuð um …
Cristina Fernández de Kirchner, fyrrverandi forseti Argentínu, er sökuð um spillingu. AFP

Ríkissaksóknari í Argentínu hefur óskað eftir rannsókn á því hvort að Cristina Fernández, fyrrverandi forseti landsins, og sonur hennar hafi framið auðgunarbrot sem tengjast tveimur athafnamönnum sem eru sakaðir um peningaþvætti og skattsvik. Fernández hefur einnig verið rannsökuð vegna peningaþvættis og svika.

Rannsóknin beinist að fasteignafélagi sem Fernández og sonur hennar, Maximo Kirchner, eiga. Það var stofnað af eiginmanni Fernández og forvera í embætti forseta, Nestor Kirchner, sem nú er látinn. Saksóknarar segja að félagið hafi leigt fasteignir af athafnamönnunum tveimur. Þeir eru báðir til rannsóknar fyrir auðgunarbrot í tólf ára valdatíð Fernández og Kirchner. Því er haldið fram að viðskiptunum hafi verið ætlað að fela greiðslur sem hjónin fengu fyrir að veita athafnamönnunum opinbera samninga og ýmis verk.

Fernández var ítrekað sökuð um spillingu á þeim átta árum sem hún sat á stóli forseta. Hún yfirgaf embættið í desember og hefur síðan þá verið rannsökuð fyrir peningaþvætti og fjársvik í opinberu starfi. Sjálf hafnar hún öllum ásökunum og segist fórnarlamb pólitískra ofsókna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert