Vísað úr skóla fyrir að klæðast niqab

Niqab er klæðnaður sem hylur þann sem því klæðist frá …
Niqab er klæðnaður sem hylur þann sem því klæðist frá toppi til táar og þar með talið and­litið. AFP

Sex múslimastúlkur fá ekki lengur að mæta í tíma við VUC framhaldsskólann í Lyngby í Danmörku af því að þær klæðast niqab, þ.e. eins konar búrku sem hylur þær frá toppi til táar og þar með talið and­litið.

Aðstoðarskólastjóri VUC framhaldsskólans í Lyngby í Danmörku segir að konur sem klæðist niqab fái ekki að mæta í tíma, en breyting var gerð á reglum skólans sl. haust og er nú ekki lengur heimilt að hylja augu, nef og munn í kennslustundum.

„Þetta er niðurstaða á ferli sem við höfum verið með í þróun í skólanum og við höfum komist að því að það hefur erfiðleika í för með sér við kennslu þegar konur klæðast niqab,“ hefur dagblaðið metroXpress eftir Inger Voller, aðstoðarskólastjóra VUC.

„Kennslan byggir á samskiptum og sem kennari þá getur maður betur séð hvort maður hafi skilning nemenda ef maður sér áhrifin sem orð manns hafa á þá og þetta er ekki sýnilegt hjá þeim sem klæðast niqab.“

Voller ítrekaði að stúlkurnar geti enn stundað nám, en það verði þá fjarnám.

Mál stúlknanna sex hefur skapað miklar umræður á Facebook síðu skólans og fleiri eru sammála úrskurði skólayfirvalda en mótfallnir, þó vissulega sé einnig hópur sem telji ákvörðunina forkastanlega.  

„Skammist ykkar VUC! Megum við konur nú ekki lengur ákveða sjálfar hverju við klæðumst? – Hvað er þá ásættanlegt? Mínipils og flegnir bolir? Svo mikið fyrir trúfrelsi og lýðræðislegan rétt til að klæðast því sem við viljum,“ hljóma viðbrögð einnar konu sem tjáði sig um ákvörðun VUC.

Voller segir ákvörðunina hins vegar ekki snúast um trúarbrögð eða þjóðerni.  

„Hvað mig varðar þá er þetta ekki spurning um trúarbrögð eða þjóðerni. Þetta snýst um kennslu, því við erum menntastofnun. Þetta snýst um að veita bestu menntunina og það teljum við okkur gera með því að eiga í óhindruðum samskiptum hvert við annað,“  sagð Voller.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert