Clinton með mikið forskot á Trump

Hillary Clinton getur glaðst yfir því að mælast með afgerandi …
Hillary Clinton getur glaðst yfir því að mælast með afgerandi forskot á Donald Trump í skoðanakönnun CNN. AFP

Fátt getur komið í veg fyrir að það verði þau Hillary Clinton og Donald Trump sem keppist um hylli bandarískra kjósenda í forsetakosningunum í haust. Í nýrri skoðanakönnun CNN er Clinton með þrettán prósentustiga forskot á auðjöfurinn kjaftfora. Forskotið hefur ekki mælst meira frá því í júlí í fyrra.

Samkvæmt könnuninni fengi fyrrverandi utanríkisráðherrann 54% atkvæða gegn 41% Trump. Þá nýtur Clinton meira trausts en auðkýfingurinn í nokkrum málaflokkum sem þátttakendur í könnuninni telja skipta sköpum með einni stórri undantekningu. Í efnahagsmálum telja 50% svarenda að Trump stæði sig betur en Clinton á móti 45% sem eru á öndverðum meiði. Nærri því níu af hverjum tíu sögðu efnahagsmál skipta gríðarlega miklu eða mjög miklu máli fyrir hvernig þeir myndu verja atkvæði sínu.

Fleiri treysta Clinton hins vegar í hryðjuverkavörnum, innflytjendamálum, heilbrigðismálum, utanríkismálum, menntamálum og loftslagsmálum.

Kjósendur eru klofnir í afstöðu sinni til Clinton. Helmingi líst vel á hana en hinum helmingunum líst illa á hana. Afstaða þeirra til Trump er hins vegar eindregnari og hafa 56% illan bifur á honum á móti 41% sem kann vel við hann.

Í frétt CNN af könnuninni kemur fram að Trump og Clinton yrðu óvinsælustu frambjóðendur stóru flokkanna tveggja samkvæmt könnunum fjölmiðilsins frá árinu 1992. Aðeins tveir aðrir forsetaframbjóðendur hafa mælst með innan við 50% traust í könnunum CNN. Það voru þeir Mitt Romney, frambjóðandi repúblikana sem 44% líkaði við í apríl árið 2012 og Bill Clinton sem naut velvilja 42% svarenda í sama mánuði árið 1992. 

Skoðanakönnun CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert